Undirbúningur fyrir nýja grunnsýningu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla
Í liðinni viku hófst endurskoðun á grunnsýningu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla, í Norska húsinu í Stykkishólmi. Í nýrri sýningu verður lögð aukin áhersla á Snæfellsnesið allt og að sýningin verði í takt við nýjustu strauma og stefnur í safnaheiminum.
Að skipta um sýningu í byggðasafni er ekki einfalt verkefni. Hvaða sögu(r) viljum við segja? Hver er kjarninn í sögu, menningu og mannlífi Snæfellsness, frá landnámi til nútíðar og hvernig viljum við miðla því ?DNA? til heimafólks og gesta? Og í söfnum nútímans er horft til framtíðar, svo það á líka við að spyrja hvert sé framlag Snæfellsness og Snæfellinga til komandi kynslóða.
Á fimmtudag í liðinni viku, var fyrsta skrefið stigið með fyrri samráðsfundi af tveimur. Þar komu saman fulltrúar allra sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, en þau eru eigendur safnsins. Einnig var boðið fulltrúum frá öllum söfnum og setrum á Snæfellsnesi, frá umhverfisvottun Snæfellsness og Svæðisgarðinum Snæfellsnesi, en hann er samstarfsaðili Byggðasafnsins í þessu verkefni.
Á fundinum var sagt frá safninu og sérfræðingar fjölluðu um nýjustu strauma og stefnur. Síðan var byrjað á að kortleggja sögu og arfleifð Snæfellsness. Þar var m.a. komið inn á atvinnulíf, nytjar, þjóðtrú, hefðir, samgöngur, náttúruvísindi og umhverfismál, búsetuþróun og félagsstarf, eins og starfsemi félaga, héraðsmót og sveitaböll. Þetta eru aðeins örfá dæmi, enda af nægu að taka.
Fundurinn heppnaðist einstaklega vel og er stefnt að síðari fundi hópsins þann 11. mars. Snæfellingar sem vilja koma hugmyndum um áhugaverð efni á framfæri, eru beðnir um að setja sig í samband við fulltrúa síns sveitarfélags, eða safnstjóra Byggðsafns - hjordis@norskahusid.is.
Fulltrúar sveitarfélaganna:
Eyja- og Miklaholtshreppur: Gísli Guðmundsson
Grundarfjörður: Eygló Bára Jónsóttir
Helgafellssveit: Harpa Eiríksdóttir
Snæfellsbær: Ragnheiður Víglundsdóttir
Stykkishólmur: Guðrún A. Gunnarsdóttir