Fara í efni

Umhverfisverðlaun veitt í umhverfisgöngu í ágúst

05.07.2021
Fréttir

Umhverfisgangan í Stykkishólmi fer fram dagana 9. til 12. ágúst nk. þar sem bæjarstjóri ásamt formönnum umhverfis- og náttúrverndarnefndar og skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar, ásamt öðrum fulltrúum bæjarins, munu ganga með íbúum um hverfi Stykkishólmsbæjar og huga að nánasta umhverfi.
Tilgangur umhverfisgöngu um hverfi Stykkishólmsbæjar er að efna til samtals um nánasta umhverfi, hvað megi betur fara í frágangi og umhirðu bæjarins auk þess að miðla upplýsingum frá Stykkishólmsbæ um framkvæmdir. Umhverfisgangan fór síðast fram í ágúst 2019 og mættu þá á annað hundrað manns, ekki varð af henni í fyrra sökum COVID-19. Íbúar eru hvattir til þess að taka þátt í göngunni í ár.

Umhverfisgangan verður nánar auglýst þegar nær dregur.

Umhverfisverðlaun

Umhverfisverðlaun Stykkishólmsbæjar verða veitt í fyrsta sinn nú í ár og var ákveðið að tvinna afhendinguna saman við umhverfisgönguna. Umhverfisganga mun þá stoppa á lóð þess sem hlýtur verðlaunin og bæjarstjóri afhendir þar fyrstu umhverfisverðlaun Stykkishólmsbæjar. Verðlaunin eru viðurkenning til þeirra sem þykja skara fram úr á sviði umhverfismála og munu hvetja viðkomandi og aðra til góðra verka á þessu sviði. Þá kemur jafnframt til greina að veita viðurkenningu fyrir snyrtimennsku og fegrun umhverfisins, t.d. snyrtilegasta íbúðarlóðin eða fyrirtækjalóðin.

Nú er því um að gera að reita arfann og hlúa að garðinum áður en ákvörðun verður tekin um fyrsta verðlaunahafa.

Hægt er að skoða reglur um umhverfisverðlaun Stykkishólmsbæjar hér.

 
Getum við bætt efni síðunnar?