Fara í efni

Umhverfisverðlaun Stykkishólmsbæjar veitt í fyrsta sinn

13.08.2021
Fréttir

Umhverfisganga bæjarstjóra stóð yfir dagana 9.-12. ágúst. Í göngunni voru Umhverfisverðlaun Stykkishólmsbæjar veitt í fyrsta sinn. 

Á miðvikudagskvöldi var m.a. gengið um Sundabakkann og voru Árþóra Steinarsdóttir og Björn Benediktsson þar verðlaunuð fyrir snyrtilegan garð og umhverfi. Við hlið lóðar þeirra er bæjarland sem þau hjón hafa tekið í fóstur, plantað trjám, slegið gras og snyrt til.

Á fimmtudagskvöldinu var m.a. gengið um Ásklif. Þar voru Hjörleifur Kr. Hjörleifsson og Magdalena Hinriksdóttir verðlaunuð fyrir snyrtilegan garð og fallegt umhverfi. Þau hjón hafa einnig tekið bæjarland í fóstur, hugað vel að og haldið snyrtilegu fyrir neðan sína lóð.

Umhverfisverðlaunin eru veitt sem viðurkenning til einstaklinga og fyrirtækja í Stykkishólmi fyrir fallega og vel hirta garða og fyrir snyrtilegt umhverfi. Við mat á snyrtilegu umhverfi er m.a. tekið mið af hönnun garða og umhverfis, viðhaldi mannvirkja, þ.m.t. girðinga, almenna umgengni, heildarmynd, frágangi bygginga og geymslu tækja og áhalda. 

Viðurkenningin er hugsuð sem hvatning til bæjarbúa um að huga vel að nærumhverfi sínu og verðlauna íbúa og fyrirtæki sem þykja skara fram úr á þessu sviði í Stykkishólmi.  

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Stykkishólmsbæjar sá um val á verðlaunahöfum í samræmi við tilnefningar frá bæjarbúum en nefndin á eftir að útdeila viðurkenningu til fyrirtækis.
Gísli Pálsson, formaður umhverfis- og náttúruverndarnefndar og Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, afhendu viðurkenningarnar í umhverfisgöngunni.

 

Getum við bætt efni síðunnar?