Fara í efni

Umhverfisganga 2021

09.08.2021
Fréttir

Umhverfisganga verður í Stykkishólmi dagana 9. til 12. ágúst. Þar mun bæjarstjóri ásamt formönnum umhverfis- og náttúrverndarnefndar og skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar og öðrum fulltrúum bæjarins, ganga með íbúum um hverfi Stykkishólmsbæjar og huga að nánasta umhverfi. Tilgangur umhverfisgöngu um hverfi Stykkishólmsbæjar er að efna til samtals um nánasta umhverfi, hvað megi betur fara í frágangi og umhirðu bæjarins, auk þess að miðla upplýsingum frá Stykkishólmsbæ um framkvæmdir.

Síðast var umhverfisganga í Stykkishólmi árið 2019 en hún féll niður í fyrra vegna COVID-19. Fjölmargar gagnlegar ábendingar bárust og margt búið að gera sem bent var á í göngunni. Aðrar ábendingar hafa einnig nýst vel og hafðar að leiðarljósi í ýmsum framkvæmdum. Í göngunni 2019 jókst þátttaka með hverju kvöldinu en alls mættu vel á annað hundruð manns. Út frá þeim umræðum sem áttu sér stað í göngunni og fór hvað mest fyrir má gera sér hug um hvað íbúum finnst að betur mætti fara í almennri umhirðu bæjarins og haga verkefnum í samræmi við það.

Mikil umræða var til að mynda um umferðaröryggi, leikvelli, gangstéttir og gönguleiðir í umhverfisgöngunni 2019. Umferðaröryggisáætlun er nú langt á veg komin og verða framkvæmdum hagað í samræmi við hana. Nýr leikvöllur hefur verið tekinn í notkun á Garðaflöt á svæði sem var til umræðu í síðustu göngu. Í lok síðasta sumars voru gangstéttar endurnýjaðar víða um bæinn. Skömmu eftir umhverfisgönguna 2019 voru fjölfarnir göngustígar malbikaðir, þ.á.m göngustígurinn frá Ásklifi og Áskinn niður að Aðalgötu og frá Aðalgötu að grunnskóla. Einnig hefur Stykkishólmsbær verið í samstarfi við Skógræktarfélag Stykkishólms vegna uppbyggingar á gönguleiðum í Grensás.

Á meðal þeirra verkefna sem búið er að vinna út frá athugasemdum sem bárust í göngunni 2019 má t.d. nefna:

  • Nýr leikvöllur settur upp.
  • Frisbígolfvöllur settur upp.
  • Nýjar gangstéttir steyptar og háir kantar víða lagfærðir.
  • Kirkjustígur, frá Maðkavík upp að kirkju.
  • Göngustígar malbikaðir.
  • Búið er að slétta og fegra lóð við Aðlgötu 17.
  • Niðurföll yfirfarin.
  • Legsteinar reistir við í kirkjugarði á Skúlagötu og ný girðing sett upp.
  • Girðing við Skúlagötu 9 endurbætt.
  • Göngustígar hafa verið lagfærðir víðsvegar um bæ og jarðvegsgrindur settar niður.
  • Girðing sett upp á milli Aðalgötu og Hótel Egilsen.
  • Hreinsað í kringum hlaðin steinvegg við bílaplan á plássinu.
  • Frágangur við Dvalarheimilið.
  • Gengið frá umhverfis Tónlistarskóla og Skólastjórabústað.
  • Bílastæðum fjölgað við Leikskóla.
  • Fjölnotapokar undir gras teknir í notkun.
  • Hvattingarátak sem enn er í gangi þar sem íbúar eru hvattir til að snyrta trjágróður á lóðamörkum.
  • Íbúar hafa verið hvattir til að fjarlæga óhreyfða bíla.
  • Ýmsar lagfæringar á leiksvæðum.
  • Ruslatunnum víða bætt við eftir ábendingum.

Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í að gera góðan bæ enn betri. Hér að neðan má sjá dagskrá göngunar og tímasetningar.

 

Getum við bætt efni síðunnar?