Umferðaröryggisáætlun Stykkishólmsbæjar samþykkt
Í umhverfisgöngum bæjarstjóra sem hófust árið 2019 kom fram ákall um bætt umferðaröryggi í Stykkishólmi. Áður hafði verið bent á það á fundum skóla- og fræðslunefndar að rýna þyrfti þetta málefni sérstaklega m.t.t. umferðaröryggis á skólasvæðum. Frá þeim tíma hefur verið unnið markvisst að því að bæta öryggi og samgöngur gangandi vegfarenda í Stykkishólmi, m.a. með bættum göngu- og tengistígum víðsvegar um bæinn.
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar samþykkti á 377. fundi sínum að setja af stað vinnu við að útbúa umferðaröryggisáætlun og drög að aðgerðaráætlun, til að bæta umferðaröryggi í Stykkishólmsbæ. Brýnt þótti að ráðast í gerð umferðaröryggisáætlunar í ört vaxandi bæjarfélagi til að trygga með bestu móti öryggi vegfarenda.
Vinnu við umferðaröryggisáætlun er nú lokið en bæjarstjórn samþykkti áætlunina á 410. fundi sínum, 20. apríl 2022. Víðtækt samráð við íbúa Stykkishólmsbæjar átti sér stað við gerð áætlunarinnar og var m.a. tekið tillit til ábendinga íbúa úr umhverfisgöngum bæjarstjóra árin 2019 og 2021. Auk þess var stofnaður samráðshópur verkefninu til stuðnings þar sem sátu m.a. fulltrúar frá Samgöngustofu, Vegagerðinni, Strætó bs. og Lögreglunni á Vesturlandi. Þá var einnig óskað eftir ábendum vegna vinnu við umferðaröryggisáætlunina sumarið 2021 og íbúar um leið hvattir til að kynna sér vinnuna.
Tilgangur áætlunarinnar er að skapa Stykkishólmsbæ ramma og reglufestu hvað varðar aðgerðir og framkvæmdir tengdar umferð og forgangsraða verkefnum sveitarfélagsins sem miða að auknu öryggi í bænum.