Fara í efni

Syndum - landsátak í sundi 1.-28. nóvember

28.10.2021
Fréttir

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. til 28. nóvember 2021. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. 

Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá sínar sundvegalengdir.  Þeir sem eiga notendanafn í verkefninu Lífshlaupið eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. 
Syndum saman hringinn í kringum Ísland

Þeir metrar sem þú syndir safnast saman og á forsíðu www.syndum.is verður hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt.  

Á heimasíðu Syndum eru allar nánari upplýsingar um verkefnið auk ýmiss annars fróðleiks og upplýsingum um sundlaugar landsins. Þeir sem skrá sig og taka þátt geta átt möguleika á að verða dregnir út og vinna veglega vinninga.  

Ekki skortir aðstöðuna í Hólminum

Í Stykkishólmi er glæsileg 25×12 m útisundlaug um 29°C með 57 m vatnsrennibraut, vaðlaug, tveir heitir pottar 38-40°C og 40-42°C og einn kaldur pottur 4-6°C.  Einnig er 12 m innilaug sem er um 33°C og hentar sem kennslu- og þjálfunarlaug en einnig fyrir börnin og ungbarnasund, en þá er hitastig venjulega hækkað upp í 35°C. Í heitupottunum er heilsuvatn sem kemur beint úr borholunni við Hofstaði, en vatnið er gott sem meðferð við ýmisskonar húðkvillum, svo sem exemi og psoriasis eins og forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar fór vel yfir í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Vísis fyrir skemmstu.
Getum við bætt efni síðunnar?