Fara í efni

Stykkishólmur í sókn - 20 tillögur til eflingar atvinnulífs - Þekkingar- og rannsóknarsetur við Breiðafjörð

20.04.2022
Fréttir

Starfshópur um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi, sem skipaður var af Stykkishólmsbæ í ágúst 2021, á grunni minnisblaðs og tillögu bæjarstjóra, dags. 23. júlí 2021, hefur lokið störfum og skilað skýrslu til bæjarstjórnar. Í skýrslunni eru útlistaðar 20 tillögur atvinnulífi í Stykkishólmi til sóknar. Megintillaga starfshópsins er að stofnað verði Þekkingar- og rannsóknarsetur við Breiðafjörð.

Í starfshópnum sátu Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri og Halldór Árnason, formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar, tilnefndir af Stykkishólmsbæ, Ólafur Sveinsson, fagstjóri atvinnuráðgjafar tilnefndur af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Reinhard Reynisson, sérfræðingur, tilnefndur af Byggðastofnun.

TILDRÖG OG VERKEFNI

Tilefni að skipan starfshópsins var að rótgróið fyrirtæki í sjávarútvegi í Stykkishólmi, Agustson ehf., sagði upp í lok júní 2021 öllum starfsmönnum sínum, samtals 32 einstaklingum, þar af voru um 25 með lögheimili í Stykkishólmi. Starfshópnum var skv. erindisbréfi ætlað að greina og leggja til aðgerðir sem verja, styðja við og efla atvinnustarfsemi og búsetuskilyrði í Stykkishólmi til lengri og skemmri tíma. Einnig var hópnum ætlað að greina þau tækifæri sem liggja í svæðisbundnum styrkleikum, þ.m.t. svæðisbundnum innviðum og auðlindum til eflingar atvinnulífs í Stykkishólmi.

SSV gerði könnun fyrir starfshópinn meðal íbúa Stykkishólms, 18 ára og eldri, þar sem áhersla var lögð á að greina tækifæri sem liggja í svæðisbundnum styrkleikjum og leggja til aðgerðir til þess að nýta þau. Alls tóku 386 manns þátt í könnuninni.  Meðal spurninga var hvort svarandi væri með viðskiptahugmynd eða önnur áform um fyrirtækjarekstur sem viðkomandi vildir geta komið í framkvæmd eða farið af stað með í Stykkishólmi? Alls sögðust 105 eða rúmlega fjórðungur vera með viðskiptahugmynd eða rúmlega fjórði hver íbúi er því með viðskiptahugmynd. Það vekur vonir um að fjölga megi störfum í Stykkishólmi ef vel er á málum haldið. 

MEGINTILLAGA - STOFNUN ÞEKKINGAR- OG RANNSÓKNASETURS VIÐ BREIÐAFJÖRÐ

Starfshópur um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi leggur til að stofnað verði Þekkingar- og rannsóknarsetur við Breiðafjörð sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að auknu klasasamstarfi einstaklinga, atvinnulífs, stofnana og opinberra aðila þannig að stuðla megi að jákvæðri samfélags- og byggðaþróun á svæðinu, byggða á svæðisbundnum styrkleikum. Þekkingar- og rannsóknarsetrið leggi áherslu á markvissa samvinnu aðila og styrki stoðkerfi frumkvöðla og nýsköpunar á sama tíma og gætt sé að verndun og sjálfbærri auðlindanýtingu.

Sveitarfélögum við Breiðafjörð verður boðið að gerast stofnaðilar þekkingar- og rannsóknasetursins. Fleiri aðilar geta komið að sem stofnaðilar eða samstarfsaðilar. Stefnt er að því að Þekkingar- og rannsóknasetrið geri samning við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um árlegt rekstrarframlag þar sem nánar verða tilgreind markmið og starfsemi setursins. Samningurinn taki mið af og hafi hliðsjón af samningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins við önnur þekkingarsetur á landsbyggðinni.

Í könnun meðal íbúa Stykkishólms sem vísað var til hér að framan kom m.a. fram að rúmlega fjórðungur svarenda sagist vera með viðskiptahugmynd. Þekkingar- og rannsóknarsetur í Stykkishólmi er t.d. líklegt til að styðja við það að einhverjar þessara hugmynda raungerist.

AÐRAR TILLÖGUR UM EFLINGU ATVINNULÍFS Í STYKKISHÓLMI

Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn til 20 tillögur atvinnulífi og búsetuskilyrðum í Stykkishólmi til framdráttar sem skiptist í eftirfarandi undirflokka: 

  • Stuðningur stjórnvalda við núverandi atvinnulíf
  • Tækifæri í auðlindanýtingu á svæðinu á næstu árum
  • Styrking innviða til framtíðaruppbyggingar atvinnulífs
  • Hægt er að kynna sér tillögurnar í skýrslu starfshóps um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi.


     
    Getum við bætt efni síðunnar?