Fara í efni

Stykkishólmsbær fær 25 milljónir í styrk til uppbyggingar í Súgandisey

10.03.2021
Fréttir
Í gær var úthlutað styrkjum úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Stykkishólmsbær fékk þar úthlutað kr. 24.950.000 til deiliskipulags og gerð útsýnissvæðis á Súgandisey sem er sérstakt áherslu- og forgangsverkefni Áfangastaðaáætlunar Vesturlands. Efnt var til samkeppni um útsýnissvæðið á síðasta ári og var tillagan Fjöregg hlutskörpust í keppninni. 
Uppbygging hefur staðið yfir á Súgandisey undanfarin ár þar sem unnið hefur verið að skipulagi og úrbótum m.a. á tröppum og stígum. Eyjan er einn vinsælasti viðkomustaðurinn í Stykkishólmi en brýn þörf hefur skapast á endurskoðun á skipulagi eyjarinnar,  ekki síst út frá þeirri staðreynd að eyjan hefur orðið fyrir óæskilegum ágangi, sér í lagi villustígum sem víða liggja. Áhersla í endurskipulagningu er lögð á að útivist á eyjunni fari saman við náttúruupplifun, ánægju ferðamanna og nauðsynlega vernd náttúrunnar. Því til viðbótar er lögð áhersla á að umgengni taki mið af sjálfbærni, þolmörkum svæðisins og umferð um eyjuna verði í takt við náttúruna.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur áður styrkt framkvæmdir og verkefni tengd Súgandisey og mun þessi styrkur stuðla að áframhaldandi úrbótum á innviðum og öryggismálum í Súgandisey.
FJÖREGGIÐ
Í júlí 2020 hélt Stykkishólmsbær í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta FÍLA hönnunarsamkeppni um hönnun útsýnisstaðar á Súgandisey. Samkeppnin var skilgreind sem lokuð hugmyndasamkeppni og sóttu tuttugu og tvö teymi um þátttöku. Fjögur teymi voru dregin út til áframhaldandi þátttöku. Í áliti dómnefndar keppninnar kemur fram að helstu markmið hennar hafi verið, auk þess að efla öryggi á vinsælum útsýnisstað, að ýta undir náttúruupplifun og auka enn frekar aðdráttarafl Stykkishólms sem eftirsóknarverðs ferðamannastaðar á Snæfellsnesi. Samkeppnin tókst vel að mati dómnefndar og skilaði mjög metnaðarfullum og faglegum tillögum. Samkeppninni lauk í september 2020 og var vinningstillagan unnin af Glámu-Kím og Landslagi í samstarfi við Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson. Vinningstillagan er í senn útsýnisskúlptúr, útsýnispallur, upplifunar- og áningastaður. Fjöreggið verður sýnilegt frá bænum og því forvitnilegt aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi.
?Fyrst og fremst er Fjöregg hugsað sem kennileiti fyrir Stykkishólm og sem glettinn, gamansamur og óvæntur áningastaður til að njóta Súgandiseyjar og útsýnisins yfir Breiðafjörð og eyjarnar.? ? segja höfundar um verkið.
Vinningstillagan vakti mikla athygli þegar hún var kynnt s.l. haust en dómnefnd í keppninni var sammála um að tillagan sem valin var í verðlaunasætið og skar sig úr með nýstárlegri nálgun, hefði auk þess ýmsar áhugaverðar skírskotanir í menningu og náttúru svæðisins.
VERKEFNIÐ AF STAÐ
Styrkurinn gerir það mögulegt að hefja deiliskipulagsvinnu og undirbúning framkvæmdarinnar, en vinna við uppsetningu hefst þegar skipulag svæðisins og fullnaðarhönnun liggur fyrir. 


Hér má finna frétt um vinningstillöguna (Fjöreggið) sem birtist á vef Stykkishólmsbæjar:

Hér má sjá kynningarmyndband um vinningstillöguna (Fjöreggið):

Getum við bætt efni síðunnar?