Fara í efni

Staðan í dag og horft til framtíðar - Ársreikningur 2020 og fjárhagsáætlun 2021-2024

19.05.2021
Fréttir

ÁRSREIKNINGUR 2020 ? MARKMIÐUM ÁÆTLANA NÁÐ

Á bæjarstjórnarfundi þann 12. maí sl.  var ársreikningur Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2020 samþykktur við síðari umræðu, en ársreikningurinn ber merki þess að síðasta ár var óvenjulegt vegna þess faraldurs sem við sem samfélag höfum verið að takast á við ásamt öðrum þjóðum. Rekstrartekjur samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta námu 1.698,5 millj. kr. á árinu en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.322,6 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 74,6 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 78,4 millj. kr. 

Á vormánuðum 2020 samþykkti bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar fjárhagslegar og samfélagslegar aðgerðir Stykkishólmsbæjar til viðspyrnu og varna vegna Covid-19 sem fólu í sér fyrsta viðbragð sveitarfélagsins til að sporna við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs Covid-19 á samfélag og atvinnulíf í Stykkishólmi. Um var að ræða þrískiptar aðgerðir voru að ræða sem báru yfirskriftina:  

1. Varnir í þágu heimila og fyrirtækja
2. Efling samfélagsins
3. Sterkari innviðir undirstaða öflugs samfélags 

 

Unnið var eftir þessari aðgerðaráætlun í faraldrinum og þannig unnið markvisst að því að reyna að draga úr neikvæðum áhrifum faraldursins. Meðal aðgerða var aukið svigrúm til fyrirtækja hvað fasteignagjöld varðar og leiðrétting á þjónustugjöldum vegna skertar þjónustu. Breytingar voru jafnframt gerðar á fjárfestingaráætlun sem fól í sér áherslubreytingar á einstaka liðum í samræmi við samþykktar fjárhagslegar og samfélagslegar aðgerðir Stykkishólmsbæjar og þá var jafnframt tekið mið af þeim aðgerðum sem Alþingi hafði gripið til vegna heimsfaraldursins COVID-19, þ.m.t. endurgreiðsla á virðisaukaskatti.

Helstu verkefni síðasta árs voru: 

  • Endurgerð og uppbygging nýrra göngustíga í Skógræktinni og víðar í bæjarlandinu
  • Framkvæmdir við Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi 
  • Aðkoma stórbætt 
  • Skipt var um hellur við inngang dvalarheimilisins
  • Gangstétt endurnýjuð og komið var fyrir nýju snjóbræðslukerfi 
  • Bætt aðkoma að Skólastjórabústaðnum
  • Viðamiklar breytingar og stækkun á búningsklefum í Sundlaug Stykkishólms
  • Uppsetningu nýs leikvallar við Garðaflöt 
  • Undirbúningur deiliskipulags og framkvæmda á Súgandisey 
  • Kirkjustígur
  • Endurbætur fóru fram á lóð leikskólans 
  • Ný leiktæki sett upp á skólalóð grunnskólans
  • Lagafæring á tjóni sem varð á Hafskipsbryggjunni
  • Efni var lagt í hlaupabraut umhverfis íþróttavöllinn 
  • Fegrun umhverfis við Aðalgötu 17
  • Skipt um allar neysluvatnslagnir í Grunnskólanum í Stykkishólmi
  • Innréttingar á setustofu kennara endurnýjaðar og þeim breytt sem og ljós í matsal         skólans
  • Íbúðir voru endurnýjaðar - bæði við Skólastíg 14 (íb. aldraðra) og Skúlagötu 9 (Blokkin)
  • LED-væðing ljósastaura í Stykkishólmi  hófst
  • Gangstéttar endurnýjaðar 
  • Uppbyggingu og gatnagerð við Sæmundarreit

Sjá nánar í yfirferð bæjarstjóra við fyrri umræðu er farið yfir helstu verkefni ársins 2020:
 

Rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð um 167,4 millj. kr. en áætlanir með viðaukum höfðu gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 155,9 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að nefna að á árinu 2020 var samþykktur viðauki í bæjarstjórn sem fól í sér framlag Aðalsjóðs til Dvalarheimilisins í Stykkishólmi að fjárhæð 153,6 millj. kr. til uppgjörs á skuldum heimilisins gagnvart Aðalsjóði. Skuld þessi er til komin vegna fjármögnunar Aðalsjóðs á rekstrarhalla einingarinnar um all nokkurt skeið. Bæjarstjórn hafði á árinu 2018 áður fært til gjalda í Aðalsjóði varúðarniðurfærslu að fjárhæð 86 millj. kr. í samræmi við mat á innheimtanleika kröfunnar. Einsýnt þótti, í ljósi niðurstöðu sambærilegra mála á árinu 2020, að ekki væru líkur á að krafan innheimtist og því var tekin sú ákvörðun að veita fyrrgreint framlag til heimilisins. Að teknu tilliti til áhrifa þessa á rekstur A hluta Stykkishólmsbæjar á árinu 2020 væri rekstrarniðurstaða A hluta neikvæð um 99,8 millj. kr. Þrátt fyrir að rekstrarniðurstaða Stykkishólmsbæjar sé neikvæð á árinu 2020 þá náði sveitarfélagið þeim markmiðum sem sett voru í fjárhagsáætlun með viðaukum fyrr árið. 

Seinni umræða í bæjarstjórn

 

Heildarfjárfesting A og B hluta á árinu 2020 nam 173,6 millj. kr. en áætlanir með viðaukum höfðu gert ráð fyrir 180 millj. kr. fjárfestingu árið 2020. Lántökur námu 310 millj. kr. og afborganir langtímalána námu 196,5 millj. kr. 

Skuldaviðmið A og B hluta Stykkishólmsbæjar í árslok 2020 er 122%, en til samanburðar var skuldaviðmið sveitarfélagsins 112% árið 2019, 120% árið 2018 og 138% árið 2017, og er rekstrarjöfnuður síðastliðinna þriggja ára jákvæður um 11,4 millj. kr. 

Faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir ríkisins hafa haft víðtæk áhrif á mörgum sviðum, þar með talin efnahagsleg og hefur höggið í þeim efnum verið einna þyngst efnahagslega á ferðaþjónustuna og tengdar greinar, sem hafði áhrif á atvinnulíf og umsvif í Stykkishólmi í samræmi við það. Í upphafi faraldursins var reiknað með að faraldurinn myndi vara í skamman tíma en ljóst er að hann hefur dregist á langinn. Enn er ákveðin óvissa um hve lengi hann mun vara og hver heildar áhrifin verða eftir að honum lýkur, en nýlegar fréttir blása okkur von í brjósti um að við séum að sjá fyrir endann á honum. Við tekur þá ákveðið uppbyggingartímabil og vinna við að ná utan um ákveðna hópa sem faraldurinn hefur hefur lagst þyngst á, þ.m.t. heilsufarslega.

Að baki er krefjandi ár í rekstri Stykkishólmsbæjar líkt og annarra félaga á þessum tímum. Bæjarstjóri og bæjarstjórn vill nota tækifærið og þakka starfsmönnum Stykkishólmsbæjar og íbúum þolgæði og þrautseigju á liðnu ári.

Hér má sjá endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings 2020

Yfirferð KPMG á bæjarstjórnarfundi

 

Hér má sjá ársreikning Stykkishólmsbæjar 2020 

FJÁRHAGSÁÆTLUN 2021-2024 ? BJARTARI TÍMAR FRAMUNDAN

Á bæjarstjórnarfundi þann 10. desember 2020 var samþykkt fjárhagsáætlun áranna 2021-2024.  Í fjárhagsáætlun er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri bæjarins á sama tíma og  leitast er við að halda þjónustu við bæjarbúa sem bestri. 

Megin markmið fjárhagsáætlunar 2021-2024 eru að tryggja jafnvægi í rekstri á tímabilinu, þ.e. skatt- og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða, að framlegð verði sem næst 12%, að veltufjárhlutfall nálgist 0,8 sem fyrst, handbært fé verði á bilinu 90-100 millj. kr. í árslok 2021 og rekstur skili nægjanlegum fjármunum til að standa undir afborgunum langtímalána.

Jafnvægi í rekstri
Heildartekjur sveitarfélagsins á árinu 2020 eru áætlaðar 1.701 m.kr. en þær voru 1.698,5 millj. kr. samkvæm niðurstöðu ársreiknings 2020 og voru 1.721 m.kr. árið áður. Í fjárhagsáætlun 2021-2024 er gert ráð fyrir að tekjur hækki um 4,5% árið 2021 og verði 1.779 m.kr. Rekstrargjöld sveitarfélagsins á árinu 2020 eru áætluð 1.580 m.kr. en voru 1.577,9 millj. kr. samkvæmt niðurstöðum ársreiknings 2020 og voru 1.471 m.kr. árið 2019 sem er hækkun um 7%. Í fjárhagsáætlun 2021 er gert ráð fyrir að gjöld aukist og nemi 1.591 m.kr.

 

Markmið samþykktrar áætlunar er að framlegð verði sem næst 12% í árslok 2021. Áætlað er að framlegð verði 121 m.kr. eða sem nemur 7,1% á árinu 2020 en með markvissum aðgerðum er ætlunin að auka framlegð frá þeim tíma og að markmið náist á árunum 2022-2024. 

Rekstrarniðurstaða nýliðins árs var lakari sem nemur 124 millj. kr. frá því sem lagt var af stað með skv. upphaflegri áætlun ársins. Skýrist það einkum af áhrifum Covid-19 á rekstur Stykkishólmsbæjar í formi aukinna útgjalda og lækkunar tekna. Afkoma A og B hluta Stykkishólmsbæjar á árinu 2020 var neikvæð um 74 m.kr., tekjur voru um 1,1% lægri en árið áður og gjöld hækkuðu um 7,0%. Í fyrsta sinn síðan 2010 lækka útsvarstekjur milli ára en þær lækkuðu um 3% á árinu 2020 frá árinu 2019. Sögulega hafa útsvarstekjur hækkað um 5,5% milli ára síðustu 10-15 ár. Með aðhaldi í rekstri og aðgerðum til að auka tekjur sveitarfélagsins er stefnt að því að jafnvægi náist í rekstri á árinu 2022. Áætlað er rekstrarniðurstaða verði jákvæð á bilinu 12-20 m.kr. á tímabilinu 2022-2024. 

Fjárfestingar
 
Samkvæmt fjárfestingaáætlun næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir að um 490 milljónum kr. (eða sem nemur 100-170 m.kr. á ári) verði varið til framkvæmda og fjárfestinga. Á árinu 2021 verður lögð áhersla á fjárfestingu í innviðum og bættri þjónustu við íbúa. Þar ber helst að nefna hlutdeild Stykkishólmsbæjar í fyrsta áfanga breytinga á húsnæði sjúkrahúss í tengslum við flutning hjúkrunarrýma og stækkun Leikskólans í Stykkishólmi. 
 
Skuldir og skuldaviðmið
 
Fjármögnun framkvæmda er að stórum hluta mætt með auknum lántökum en þó með þeim hætti að skuldahlutfall og skuldaviðmið haldist innan markmiðs sem sett hefur verið. 
 
Skuldahlutfall og skuldaviðmið samstæðu A og B hluta hækkaði milli áranna 2019-2020. Bæði vegna aukinnar lántöku en ekki síst vegna lækkunar tekna Stykkishólmsbæjar en lækkun tekna hefur bein áhrif á hlutfallið.  Gangi áætlanir eftir mun skuldahlutfall og skuldaviðmið sveitarfélagsins lækka og gera áætlanir ráð fyrir að skuldaviðmið verði í kringum 124,8% strax í lok árs 2021 og 115,9% í árslok 2024.

Yfirlit yfir helstu lykiltölu í fjárhagsáætlun 2021-2024

Sjá má kynningu á markmiðum og helstu stærðum í fjárhagsáætlun í meðfylgjandi hlekk.

SAMEIGINLEG BÓKUN BÆJARSTJÓRNAR STYKKISHÓLMSBÆJAR VIÐ SAMÞYKKT SÍÐUSTU FJÁRHAGSÁÆTLUNAR:

?Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 er unnin í mikilli og góðri samvinnu allra bæjarfulltrúa og um hana hefur myndaðist þverpólitísk samstaða, þó svo að þeir þrír listar sem standa að bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hafi allir ólíkar áherslur. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar er einhuga í því að leggja áherslu á að draga ekki úr grunnþjónustu, standa vörð um fjölskyldur og fyrirtæki, sækja af ábyrgð fram með fjárfestingum innviða á sama tíma og unnið er að því að ná jafnvægi í rekstri bæjarins. 

Ljóst er að útsvarstekjur og tekjur úr jöfnunarsjóði hafa dregist saman á árinu 2020 vegna COVID-19 heimsfaraldursins, frá því sem áætlun ársins gerði ráð fyrir, ásamt hluta af þjónustutekjum sveitarfélagsins. 

Í fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar er tekið mið af þeirri stöðu og því gert ráð fyrir varfærinni nálgun í tekjuáætlun bæjarins á árinu 2021 og árunum 2022-2024, bæði hvað varðar skatttekjur og þjónustutekjur, og raunsæja útgjaldaáætlun. Óvissa er jafnframt með þróun verðbólgu, en aukin verðbólga hefur vegna skuldastöðu sveitarfélagsins mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu bæjarins.
Verkefni bæjarstjórnar á næstunni verður að vinna að því að nýta það svigrúm sem til staðar er sem best til þess að minnka sem mest langvinnan skaða vegna þeirra aðstæðna sem COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft á efnahagslíf og búskap hins opinbera, fara í vel valdar og arðbærar fjárfestingar og skapa svigrúm til eflingar samfélagsins á svæðinu. 

Til að mæta þeirri stöðu sem myndast hefur á vinnumarkaði hefur bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar horft til mannaflsfrekari framkvæmda við val á fjárfestingum og þannig er svarað ákalli ríkisstjórnarinnar og atvinnulífs. Í því sambandi verður jafnframt horft til vinnuátaksins ?Allir vinna? í fjárfestingum sveitarfélagsins, sem felur í sér heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri vinnu, og má nefna í því sambandi uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og stækkun Leikskólans í Stykkishólmi. 

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar er samhuga um að Stykkishólmsbær gangist ekki undir skuldbindingar sem raski forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt í vor að taka tímabundið úr sambandi reglur um fjármálastjórn sveitarfélaga, bæði um skuldaviðmið og jafnvægisviðmið.? 

 
Getum við bætt efni síðunnar?