Sóttvarnarráðstafanir hertar
Í Stykkishólmi er nú einn skráður í einangrun vegna COVID-19. Ekki er um að ræða nýtt smit sem var að greinast í dag heldur leiðréttingu á skráningu.
Á morgun, 31. október, taka gildi nýjar og hertar sóttvarnarráðstafanir. Sömu reglur verða í gildi um allt land. Samkomutakmarkanir verða hertar þannig að leyfilegur fjöldi sem saman má koma fer niður í tíu manns, en var áður tuttugu. Tveggja metra reglan verður áfram í gildi og grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Þá er sundlaugum landsins gert að loka og íþróttastarf óheimilt. Sundlaug Stykkishólms verður því lokuð frá 31.október til 17. nóvember nk.
Ný reglugerð um takmarkanir á skólahaldi mun vera kynnt um helgina og því eru foreldrar hvattir til þess að fylgjast vel með tilkynningum frá skólayfirvöldum.
Helstu aðgerðir eru þessar:
- 10 manna fjöldatakmörk meginregla. - Heimild fyrir 30 manns í útförum en 10 að hámarki í erfidrykkjum.
- 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins. - Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla.
- 10 manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.
- Íþróttir óheimilar.
- Sundlaugum lokað.
- Sviðslistir óheimilar.
- Krám og skemmtistöðum lokað.
- Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21.00.
- Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
- Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).
Aðgerðirnar verða endurmetnar eftir aðstæðum en gera má ráð fyrir að þær gildi til og með 17. nóvember.
Íbúar Stykkishólmsbæjar eru senn sem áður minntir á að huga vel að persónubundnum smitvörnum og fylgja gildandi takmörkunum.