Snyrting trjágróðurs í Stykkishólmi
Trjágróður sem vex út fyrir lóðarmörk getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Stykkishólmsbær hvetur garðeigendur til að klippa tré sín svo þau hvorki hindri vegfarendur, hylji umferðarskilti, götumerkingar né dragi úr götulýsingu. Einnig þarf að hugsa fyrir aðgengi vegna snjóhreinsunar.
Garðeigendur bera ábyrgð á sínum gróðri
Garðeigendur eru hvattir til þess að kynna sér lögreglusamþykkt Stykkishólmsbæjar, þar sem meðal annars kemur fram í 12. gr. að gróður, s.s. tré, runnar o.s.frv., skulu ekki skaga út í eða út yfir gangstéttar, gangstíga eða götur. Þá eru garðeigendur minntir á að byggingarreglugerð nr. 112/2012 gr. 7.2.2 setur garðeigendum þá skyldu á herðar að halda gróðri innan lóðarmarka. Þar segir: ?Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.?
Þessi atriði þurfa að vera í lagi:
- Umferðarmerki verða að vera sýnileg.
- Gróður má ekki byrgja götulýsingu.
- Gangandi og hjólandi þurfa að eiga greiða leið um gangstíga.
- Þar sem vélsópar og snjóruðningstæki fara um má lágmarkshæð gróðurs yfir stígum ekki vera lægri en 2,8 metrar.
- Þar sem sorphirðubílar þurfa að komast eftir stétt eða stíg má gróður ekki vera neðar en 4,2 metrar, sambærilegt við akbraut.
Yfirlitsmynd af hæðarmörkum trjágróðurs:
Garðeigendur í Stykkishólmsbæ eru hvattir til að klippa og snyrta allan gróður á lóðarmörkum og jafnframt að huga almennt að garðinum öllum og næsta umhverfi. Einnig eru íbúar hvattir til að fjarlægja bílhræ og önnur tæki og tól í niðurníðslu sem eiga til að safnast innan lóðarmarka. Þannig getum við öll hjálpast að við að hafa bæinn okkar enn snyrtilegri og fallegri. Samkvæmt nýlegum úrskurði úskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kemur skýrt fram að heilbrigðiseftirlitið hefur heimild til þess að fjarlægja númerslausa bíla á einkalóðum, á þeirri forsendu einni að um sé að ræða lýti á umhverfinu. Fyrirspurnir og/eða ábendingar