Fara í efni

Skóla- og æskulýðsstarf í Stykkishólmi í samræmi við nýjar reglur

03.11.2020
Fréttir

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar tók gildi nú í morgun og gildir til og með 17. nóvember nk., með fyrirvara um breytingar. Markmiðið með reglugerðinni er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.

Reglugerðin tekur til leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla, en einnig til annarrar starfsemi, svo sem frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfs.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum frá skólum, sem og sóttvarnaryfirvöldum.

Hér má finna samantekt á helstu ráðstöfunum skóla- og æskulýðsstarfs í Stykkishólmi.

GRUNNSKÓLINN

  • Kennsla hefst kl. 10:00 miðvikudaginn 4. nóvember
  • Skólanum verður hólfaskipt líkt og áður.
  • Íþróttir og sund ásamt list- og verkgreinum falla niður að mestu leyti.
  • Nemendur eru beðnir um að koma með drykki í brúsa eða fernum
  • Foreldrar og aðrir gestir eru beðnir um að koma ekki inn í skólann.
  • Regnbogaland mun loka fyrr svo hægt sé að gæta að fyllsta hreinlæti og sótthreinsa snertifleti og leikföng.

1.-4. bekkur
Nemendur fá 30 kennslustundir á viku í skólanum, hádegisverð og vistun í Regnbogalandi. Nánari stundatafla mun berast foreldrum/forráðamönnum nemenda.

5.-6. bekkur
Nemendur  fá 30 kennslustundir og verða í skólanum 8:10 ? 12:30, ekki er unnt að bjóða þeim upp á hádegisverð vegna fjarlægðartakmarkana og grímuskyldu fyrir þennan aldurshóp

7. ? 10. bekkur
Nemendur munu vera að hluta til í fjarnámi og að hluta til í staðnámi í íþróttahúsinu. Grímuskylda og fjarlægðartakmarkanir munu gilda fyrir 7. ? 10. bekk og ekki boðið upp á mötuneyti. Nánari upplýsingar munu berast foreldum/forráðamönnum.

Allar nánari upplýsingar hafa borist foreldrum og forráðamönnum í tölvupósti frá skólastjórnendum.

LEIKSKÓLINN

Reglugerð um samkomutakmarkanir hefur ekki afgerandi áhrif á starf leikskólans umfram það sem orðið er nú þegar. Áfram verður hólfaskipt og samgangur milli deilda takmarkaður. Engar sameiginlegar söngstundir verða, ekki flæðival og ekki sameiginlegar afmælishátíðir.
Foreldrar eru minntir á að viðhalda sömu sóttvörnum og áður; þvo, spritta og bera grímu þegar þið komið inn í fataklefa.

TÓNLISTARSKÓLINN

Allt hópastarf innan tónlistarskólans fellur niður eða fer í fjarkennslu. Það eru lúðrasveitirnar, Hallgerður, Ruglukollarnir og tónfræðihóparnir.
Nemendur eru beðnir að koma einir í tíma og taka ekki vini sína með. 
Kennarar og nemendur halda tveggja metra fjarlægð milli sín eftir föngum, annars verður grímuskylda á kennurum og nemendum fæddum 2010 og fyrr. 
Á göngum skólans og opnum rýmum verður grímuskylda á kennurum og nemendum fæddum 2010 og fyrr. Nemendur halda áfram að vera duglegir að þvo hendur fyrir tíma og spritta.

FÉLAGS- OG ÆSKULÝÐSSTARF

Samkvæmt reglugerðinni er skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, þ.m.t. starf félagsmiðstöðva, barna á grunnskólaaldri er óheimilt. Þar af leiðandi lokar félagsmiðstöðin X-ið á meðan reglugerðin er í gildi. Leitað er nú leiða til að fjölga rafrænum viðburðum fyrir ungmenni á landinu.

SamfésPlús er nýtt verkefni á vegum Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi. Fyrsta verkefni sem tengist SamfésPlús er hlaðvarpið ?UNGT FÓLK OG HVAÐ?? sem fulltrúar Ungmennaráðs ungmennahúsa stýra, á meðal þeirra fulltrúa er Hólmarinn Védís Ýr Bergþórsdóttir.
Fyrsta þátt má nálgast á Facebook síðu Ungt fólk og hvað, Instagram og á Spotify.

 
Getum við bætt efni síðunnar?