Fara í efni

Skoða möguleika áframeldi steinbíts í nágrenni Stykkishólms í samstarfi við Matís

05.05.2022
Fréttir

Á dögunum ritaði Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, undir viljayfirlýsingu fyrir hönd Stykkishólmsbæjar, um landeldi og sjálfbæra framleiðslu matvæla á grunni grænna iðngarða. Undir yfirlýsinguna skrifaði einnig Siggeir Pétursson fyrir hönd Hólmsins ehf. Á 411. fundi bæjarstjórnar var viljayfirlýsingin staðfest samhljóða af öllum listum í bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar. 

Með viljayfirlýsingunni lýsa Stykkishólmsbær og Hólmurinn ehf. því yfir að vera sammála um að vinna í sameiningu að frumgreiningu möguleika til strandeldis á steinbíti í nágrenni Stykkishólms í samstarfi við Matís ohf. á grunni samkomulags Stykkishólmsbæjar og Matís ohf. um aukna verðmætasköpun í Stykkishólmi.

Að verkefninu standa systkinin og Hólmararnir Lára Hrönn og Siggeir Pétursbörn.

Sérstök áhersla verður lögð á greiningu vatns- og orkuþarfar og möguleika á innlendum fóðurgjafa sem fellur til við vinnslu á sjávarafurðum á svæðinu. 

Samkvæmt yfirlýsingunni verður í byrjun lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

  • Stykkishólmsbær útvegi Hólminum ehf., eftir nánara samkomulagi, landsvæði án endurgjalds til tímabundinna afnota til uppsetningar á eldiskerum og búnaði  vegna tilraunarinnar sem skal vera auðfjarlægður að tilraun lokinni. Stykkishólmsbær aðstoði jafnframt við undirbúning svæðisins skv. nánara samkomulagi.
  • Hólmurinn ehf. ber að öðru leyti ábyrgð á verkefninu, þ.e. annast uppsetningu búnaðar, skipuleggur og gerir fyrirhugaðar tilraunir, fylgist með gæðum sjávar í eldi og deilir upplýsingum og greiningum á frekari möguleikum strandeldis á steinbíti á svæðinu með Stykkishólmsbæ. 
  • Hólmurinn ehf. skuldbindur sig til að afla allra nauðsynlegra leyfa fyrir undirbúningi, uppbyggingu, framkvæmd og rekstrar fyrirhugaðs landeldis í samræmi við ákvæði laga og reglna sem um starfsemina gilda. 
  • Gefin verður út skýrsla í samvinnu við Matís ohf. að verkefni loknu þar sem fýsileika steinbítsáframeldis er metið út frá fjárhags-, markaðs, umhverfis-, tækni- og lagalegum áskorunum.

    Áhersla verður lögð á sjálfbæra nýtingu auðlinda og byggja á hugmyndafræði grænna iðngarða um samnýtingu orku- og efnisstrauma.

     
    Getum við bætt efni síðunnar?