Samrekstur grunnskóla og tónlistarskóla frá og með skólaárinu 2021-2022
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær, 25. febrúar, skipulagsbreytingar á skólastarfi í Stykkishólmi, sem fela í sér breytingu á stjórnun með samrekstri grunnskóla og tónlistarskóla, sem mun koma til framkvæmda frá og með skólaárinu 2021-2022.
Markmið þessara breytinga er fyrst og fremst að auka mátt tónlistar í sveitarfélaginu með því að auka svigrúm til faglegrar stjórnunar og ríkari kennsluskyldu sem byggi undir gæði náms og möguleika til kennslu, sem og flæði tónlistarskóla eða tónlistanáms í grunnskólanum. Breytingarnar eru einnig í samræmi við skólastefnu Stykkishólmsbæjar, en í skólastefnu Stykkishólmsbæjar er meðal forgangsverkefna að efla samstarf skólanna, m.a. með sameiginlegri stefnumótun, og samhæfa verkefni skólastofnana. Þá styður breytingin jafnframt við framtíðaráform Stykkishólmsbæjar um stækkun grunnskólans og byggingar tónlistarskóla við grunnskólann.Í umsögn skóla- og fræðslunefndar, um breytingarnar, sem samþykktar voru samhljóða á 181. fundi nefndarinnar, kemur fram að nefndin telur tillögu að skipulagsbreytingum styðja við skólastefnu bæjarins og sérstaklega markmið hennar um aukið samstarf milli skóla. Nefndin telur æskilegt að tryggja heildstæða stjórnun þvert á báða skóla með stofnun nýs starfs aðstoðarskólastjóra í stað fyrra starf deildarstjóra grunnskóla. Vegna sérstöðu tónlistarskóla sé jafnframt þörf á fagmenntuðum deildarstjóra við tónlistarskólann og telur nefndin það fyrirkomulag sem lagt er til í þeim efnum skynsamlegt.Breytingarnar fela í sér að starf skólastjóra tónlistarskóla verði lagt niður og er það gert á sama tíma og skólastjóri Tónlistarskóla Stykkishólms hefur óskað eftir að láta af störfum. Mun stjórnun tónlistarskólans falla undir starf skólastjóra grunnskólans. Þá verði lögð niður staða deildarstjóra við grunnskólann og stofnað nýtt starf aðstoðarskólastjóra sem hafi það hlutverk bæði gagnvart grunnskólanum og tónlistarskólanum. Einnig verði stofnað nýtt starf deildarstjóra við tónlistarskólann og bæði störfin auglýst í samræmi við reglur Stykkishólmsbæjar.