Fara í efni

Samkeppni um nafn á skrifstofu- og frumkvöðlasetri í Stykkishólmi

07.05.2021
Fréttir

Einkahlutafélagið Suðureyjar ehf. mun síðar í þessum mánuði opna skrifstofu- og frumkvöðlasetur að Aðalgötu 10 í Stykkishólmi. Félagið hefur ákveðið að efna til samkeppni meðal bæjarbúa og annarra áhugasamra um nafn á setrinu. Frestur til að senda tillögu að nafni ásamt rökstuðningi er til miðnættis sunnudaginn 23. maí nk. og skal skilað á netfangið samkeppni@stykkisholmur.is

Veitt verða þrenn vegleg verðlaun fyrir bestu tillögurnar að mati dómnefndar. Höfundar vinningstillögu fá í verðlaun gistingu í eina nótt fyrir tvo á Hótel Flatey ásamt morgunverði og siglingu til og frá Flatey. Önnur verðlaun er eyjasigling með áherslu á Suðureyjar og kampavín. Þriðju verðlaun er Criss-cross matar- og menningarganga um Hólminn fyrir tvo. Í dómnefnd sitja Steinunn Helgadóttir, formaður, Helgi Árnason og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar.

Suðureyjar ehf. var stofnað árið 2020 af 8 fyrirtækjum með sterka tengingu við Stykkishólm og hefur það að markmiði að auðvelda frumkvöðlastarf og tækifæri til fjarvinnu, óháð aðsetri vinnuveitanda og stuðla að því að fjölga íbúum Stykkishólms. 

Suðureyjar munu leigja til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla snyrtilega starfsaðstöðu að Aðalgötu 10 með aðgang að ljósleiðaratengingu og góðri fundar- og kaffiaðstöðu, Þannig hafa þeir sem þar starfa félagsskap og stuðning hver af öðrum. Húsnæðið mætir t.d. fullkomlega þörfum fyrirtækja og stofnana sem auglýsa störf án staðsetningar. Gert er ráð fyrir að aðstaðan, ýmist sérherbergi eða í opnu rými, verði tilbúin til útleigu um næstu mánaðarmót 2021.

Á næstu vikum og mánuðum mun stjórn Suðureyja ehf. kynna, m.a. fyrir brottfluttum Hólmurum, þá aðstöðu sem er í boði og þeir hvattir til að flytja starfsvettvang sinn og heimili til Stykkishólms. Einnig verða forsvarsmönnum stærri stofnana og tæknifyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu kynntir kostir þess að starfsmenn staðsetji sig í Stykkishólmi og að fyrirtækið taki á leigu starfsaðstöðu þar. Hér verður nýtt það kynningarefni sem Stykkishólmsbær hefur látið útbúa fyrir vefmiðla og aðra samskiptamiðla, þar sem kynnt er fjölbreytt þjónusta í Stykkishólmi sem er í boði fyrir einstaklinga og fjölskyldur, framboð á afþreyingu og vistvænt umhverfi og fleira sem gerir Stykkishólm að eftirsóttum stað til að búa og starfa. 
Með von um góðar undirtektir og farsælt samstarf,
Stjórn Suðureyja ehf.

 
Getum við bætt efni síðunnar?