Fara í efni

Plokkum í tilefni af Degi umhverfisins

23.04.2021
Fréttir

Dagur umhverfisins er á næsta leyti og þá er tilefni til þess að taka á móti vorinu og fara út að hreyfa sig og fegra nærumhverfið. Þann 25. apríl ár hvert er Degi umhverfisins fagnað víða um land, en dagurinn er tileinkaður umhverfinu sem hvatning til að tengjast náttúrunni og efla umhverfisvitund. Meðal þess sem landsmenn munu gera er að leggja leið sína út í náttúruna og tína rusl. 

Snæfellingar láta ekki sitt eftir liggja og við blásum til sameiginlegs átaks á svæðinu með hvatningu til íbúa um að taka þátt.

Íbúar Stykkishólmsbæjar eru hvattir til að taka þátt og fegra nærumhverfið. Hægt verður að nálgast ruslatínur til láns og poka undir rusl hjá forstöðumanni Íþróttamiðstöðvarinnar um helgina. Fyrir utan Gámastöðina Snoppu verður tunnu komið fyrir þar sem íbúar geta hent rusli eftir plokk.

Í fréttatilkynningu frá Umhverfisvottun Snæfellsness eru útlistuð nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar haldið er út að plokka:

  • Velja sér ákveðið svæði til að plokka ? hvort sem það er í kringum húsið, í hverfinu, eða falleg gönguleið
  • Vera vel búin eftir veðri og með góða hanska, jafnvel ruslatínu
  • Virða samkomutakmarkanir og ekki hópa saman, aðeins plokka með ?búbblunni?
  • Koma ruslinu á gámasvæðin eða þar sem sveitarfélögin taka við ruslinu
  • Gæta varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti eiga sig og ávallt að láta fullorðna vita ef að slíkt finnst.
  • Njóta náttúrunnar og samverunnar með fjölskyldunni
Þá væri gaman ef íbúar merki myndir á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #snæfellsnesplokkar.
Getum við bætt efni síðunnar?