Fara í efni

Öskudagur með óhefðbundnu sniði

19.02.2021
Fréttir

Fyrirtæki og þjónustuaðilar Stykkishólms voru ekki heimsótt þetta árið í tilefni öskudagsins með tilheyrandi skrúðgöngu og söng. Gangan hefur verið fastur liður á öskudaginn í 35 ár og verður gaman að sjá til hennar að ári liðnu. 
Fyrirtæki studdu engu að síður skemmtun sem fór fram á skólatíma með glaðning sem afhentur var í lok skóladags. Stykkishólmsbær tók þátt í glaðningnum með því að láta gott af sér leiða og færði krökkunum glaðning frá Kaupum til góðs þar sem 100 kr. af hverjum 1000 kr. rennur til samstarfsaðila sem nýta peningana til góðra verka. Með þessum hætti hafa viðskiptavinir Kaupum til góðs safnað fé til að styrkja langveik börn, fjármagnað tölvur og tækjabúnað fyrir blind börn, stuðlað að grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini, stutt við bakið á börnum og ungu fólki sem greinist með krabbamein og komið að öðrum mikilvægum verkefnum.

Öskudagurinn fór engu að síður fram með hefðbundnu sniði í leikskólanum þar sem börn og kennarar klæddu sig upp í tilefni dagsins. Skemmtileg hefð hefur skapast í leikskólanum þar sem börnin bæði hanna og búa til búningana sína sjálf með aðstoð sinna kennara. Má sjá afraksturinn á heimasíðu leikskólans.
Í grunnskólanum mættu börn og kennarar einnig í búningum og gerðu sér dagamun en í ljósi aðstæðna tók foreldrafélag grunnskólans ákvörðun um að gera breytingar á hefðbundinni öskudagsdagskrá í samvinnu við grunnskólann og félagsmiðstöðina. Segja má að hin hefðbundna þrautabraut, sem venjulega fer fram að skóladegi og skrúðgöngu lokinni, hafi verið færð inn í skóladaginn þar sem hver bekkur fyrir sig fékk skemmtun í íþróttahúsinu með þrautabraut, leikjum og gotteríi.

Félagsmiðstöðin efndi síðan, í samvinnu við tómstundaval, til grímudansleiks fyrir nemendur 7.-10. bekkjar.

Meðfylgjandi myndir eru frá leikskólanum

Getum við bætt efni síðunnar?