Nýjar gönguleiðir í Grensás
Stykkishólmsbær og Skógræktarfélag Stykkishólms hafa síðast liðin tvö ár unnið saman að framtíðarsýn og uppbyggingu á skógræktarsvæðinu við Grensás með það að markmiði að auka útivistarmöguleika í nálægð við Stykkishólm.
Í myndbandinu hér að neðan fer Björn Ásgeir Sumarliðason, formaður Skógræktarfélagsins, yfir þá nýju stíga sem lagðir hafa verið í Grensás í samvinnu við Stykkishólmsbæ og styrktaraðila Skógræktarfélagsins. Hólmarar og gestir bæjarins eru hvattir til að nýta sér þessar skemmtilegu gönguleiðir og njóta alls þess sem skógurinn hefur uppá að bjóða.
Undanfarið hefur verið unnið að gagnvirku korti og skilti sem kynna gesti skógarins fyrir þeim gönguleiðum sem liggja um suðvesturhluta skógræktarinnar. Fjórir stígar á vestursvæði Grensáss hafa nú fengið nafn og auk þess þrír áfangastaðir í skóginum. Fuglar svæðisins eru innblástur að nöfnunum en stígarnir heita: Uglustígur, Glókollastígur, Starastígur og Þrastastígur.
Áfangastaðirnir heita: Rjúpurjóður, Þrastalundur og Arnarhreiður.
Smelltu hér til að skoða gagnvirkt kort af svæðinu.