Fara í efni

Niðurstöður skoðanakönnunar á Snæfellsnesi um umhverfi og samfélag

10.03.2021
Fréttir

Rafræn skoðanakönnun um umhverfi og samfélag var birt á vefsíðum sveitarfélaganna og umhverfisvottunarverkefnisins 1. desember 2020 og stóð hún til 17. desember 2020. Þetta var önnur skoðanakönnunin á vegum umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness en sú fyrri var send út í árslok 2012. Niðurstöðurnar hafa nú verið birtar á vef Umhverfisvottunar Snæfellsness. Skýrslu með niðurstöðunum er hægt að nálgast í heild sinni hér. 

Meginspurningar könnunarinnar snerust um umhverfismál annars vegar og samfélagsmál hins vegar, þ.e. hvaða atriði innan þessara málefna íbúum fannst skipta mestu máli og að sveitarfélögin ættu að leggja áherslu á. Svarendur gáfu stig um mikilvægi atriðanna, og að auki fylgdu opnir svarmöguleikar.
Þau málefni í samfélagsmálum sem þátttakendur, heilt yfir, töldu mikilvægust í sínu sveitarfélagi voru málefni eldri borgara, lýðheilsa og aukið samráð við íbúa. Á eftir þeim komu aukið samráð við fyrirtæki, málefni fatlaðra, æskulýðsstarf, ferðaþjónusta og málefni nýbúa. 
Þau málefni í umhverfismálum sem íbúar töldu mikilvægust voru úrgangsmál, orkunotkun og verndun vistkerfa. Á eftir þeim komu matarsóun, aukið umhverfisstarf í skólum, aukið samráð/samvinna við fyrirtæki í umhverfismálum, losun gróðurhúsalofttegunda, aukin sjálfbærni/náttúruvernd/umhverfisvernd, fjölgun friðlýstra svæða og kolefnisbinding með endurheimt votlendis, landgræðslu eða skógrækt.

Þátttakendur voru spurðir um einstök verkefni síns sveitarfélags í þágu umhverfisins sem þeir hefðu tekið eftir og kynnu að meta. Hjá íbúum Stykkishólmsbæjar var sorpflokkun, gerð göngustíga og umhverfisvottun það sem helst var tilgreint og mest ánægja með.

Stefnt er að leggja könnun sem þessa fyrir íbúa Snæfellsness reglulega næstu ár. Niðurstöðurnar endurspegla að sjálfsögðu ekki álit samfélagsins í heild, en þær gefa stjórnendum sveitarfélaganna hugmynd um hvar úrbóta er þörf. Umhverfisvottunarverkefnið mun á næstu árum nýta þessi gögn við verkefnaval í framkvæmdaáætlun, val á fræðsluefni og við upplýsingagjöf. 
Hér má nálgast frétt um niðurstöðurnar á vef Umhverfisvottunar Snæfellsness

Getum við bætt efni síðunnar?