Lóðin Áskinn 6 laus til umsóknar
Lóðin Áskinn 6 er auglýst til úthlutunar í samræmi við reglur Stykkishólmsbæjar um úthlutun á lóðum fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði og bætist þar með á úthlutunarlista yfir lausar lóðir í Stykkishólmi. Umsóknarfrestur er 10 dagar, frá 27. apríl til og með 7. maí. Berist fleiri en ein umsókn að lokinni auglýsingu, þ.e. 7. maí, og uppfylli þær skilyrði framangreindra úthlutunarreglna Stykkishólmsbæjar skal hlutkesti ráða úthlutun, en eftir þann tíma skal úthluta þeim til fyrsta umsækjanda sem eftir leitar að uppfylltum skilyrðum reglnanna.
Á lóðinni er heimilt að byggja einbýlishús, parhús eða þríbýli á einni hæð. Þar sem ekki er til gildandi deiliskipulag af svæðinu ber að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn samkvæmt 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Hægt er að sækja um lóðina á íbúagátt Stykkishólmsbæjar.
Skipulagsfulltrúi Stykkishólmsbæjar veitir allar nánari upplýsingar í síma 433-8100, netfangi: skipulag@stykkisholmur.is eða í Ráðhúsi Stykkishólmsbæjar.
LEIKVÖLLUR FYRIR YNGSTU BÖRNIN
Lóðin var fyrst auglýst laus til umsóknar árið 2020. Í samræmi við stefnu Stykkishólmsbæjar um þéttingu byggðar var samþykkt að breyta hluta af leikvallarsvæði við Áskinn í íbúðahúsalóð, en umrætt svæði er skilgreint sem íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Stykkishólmsbæjar. Í samræmi við niðurstöðu íbúasamráðs Stykkishólmsbæjar um framtíðarskipulag leikvalla í Stykkishólmi mun áfram vera leikvöllur á svæðinu en hann mun vera minni að umfangi en nú er og með leiktækjum fyrir yngri börn (0-6 ára). Leikvöllurinn færist á svæði norð-austan við lóðina eins og sjá má á myndinni hér að neðan.