Fara í efni

Krafa um nýja og öfluga ferju sem uppfylli allar nútíma öryggiskröfur

18.03.2021
Fréttir

Fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV), Vestfjarðastofu og sveitarfélögum við Breiðafjörð hafa undanfarna daga átt fundi með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Vegamálastjóra og þingmönnum Norðvesturkjördæmis um stöðuna sem upp er komin vegna bilunar sem varð í Breiðafjarðaferjunni Baldri í síðustu viku. Hafa sveitarfélögin sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna málsins: 
Eins og öllum er kunnugt varð bilun í aðalvél Baldurs sem varð til þess að ferjan varð vélarvana á miðjum Breiðafirði og tók rúman sólarhring að draga ferjuna í land í Stykkishólmi.  Mikil mildi var að allt fór vel, en ekki mátti mikið út af bregða til þess að hlutir hefðu getað farið til verri vegar.  Fram kom í máli samgönguráðherra að bilunin yrði skoðuð af rannsóknarnefnd samgönguslysa og telja fulltrúar sveitarfélaganna brýnt að það verði gert. 

Ferjan Baldur gengir afar mikilvægu hlutverki sem tenging á milli sunnanverðra Vestfjarða og Snæfellsness og er oftar en ekki eina greiðfæra leiðin fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum yfir vetrartímann þar sem vegur yfir Klettsháls lokast mjög oft og gegnir ferjan lykilhlutverki í að tryggja  flutning fólks sem og vaxandi magns sjávarafurða og aðfanga.  Þá gegnir ferjan mikilvægu hlutverki fyrir byggðina í Flatey og þá íbúa sem þar eiga fasta búsetu allt árið um kring og þá stólar Flatey á afhendingu vatns í eyjuna með Baldri. Það öryggisleysi sem íbúar og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum búa nú við í samgöngum í kjölfar bilunar Baldurs er óásættanlegt.  
Á fundunum lögðu fulltrúar sveitarfélaganna þunga áherslu á að endurreisa þarf öryggi og traust íbúa og atvinnulífs á ferjusiglingu á Breiðafirði. Þar sem langt er í land um úrbætur á vegsamgöngum skiptir verulegu máli fyrir mannlíf og atvinnulíf á Vestfjörðum og Vesturlandi að ferjusiglingar séu öruggur valkostur.  Á fundunum var jafnframt ítrekað mikilvægi þess að unnin verði viðbragðsáætlun ef bilun eða slys verða, til að tryggja með öllum ráðum að atvik síðustu viku endurtaki sig ekki og öryggi farþega verði tryggt. Einnig að tryggðar verði viðunandi viðbrögð ef ferjuslys verður á friðuðum Breiðafirði til að lágmarka umhverfisáhrif. Einnig er mikilvægt að yfirfarinn verði gildandi samninga um reksturs Baldurs.  Auk þess er forgangsmál að fá fram kostnað og niðurstöðu um mögulega notkun á Herjólfi 3 til reksturs á Breiðafirði til skemmri tíma.  
Það er ljóst að framtíð ferjusiglinga er grundvallarþáttur fyrir Vestfirði og Vesturland.  Því var mjög jákvætt að á þessum fundum hefur komið fram að stjórnvöld og þingmenn eru sammála þessu sjónarmiði og að bætt vegakerfi mun ekki þýða að rekstri ferju verði hætt.  Þar vega hagsmunir byggðar, ekki síst í Flatey - og beggja vegna Breiðafjarðar þungt.  Því er afar brýnt að nú þegar verði hafist handa við að endurskoða þarfir og forsendur ferjusiglinga til framtíðar.  Að okkar mati er eina lausnin til lengri tíma er að ný og öflug ferja sem uppfylli allar nútíma öryggiskröfur hefji siglingar eins fljótt og verð má.

Getum við bætt efni síðunnar?