Fara í efni

Kosið um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar 26. mars 2022

03.02.2022
Fréttir

Samstarfsnefnd um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar lagði álit sitt og helstu forsendur til tveggja umræðna í sveitarstjórnum lögum samkvæmt og hafa þær umræður farið fram. Það er álit nefndarinnar að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu þeirra í eitt. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og sveitastjórn Helgafellssveitar hafa nú samþykkt að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna fari fram laugardaginn 26. mars nk. í báðum sveitarfélögum.

Sterkur fjárhagur undir einni sæng

Í áliti nefndarinnar kemur fram að sveitarfélögin tvö hafi átt í farsælu samstarfi til áratuga og getur sameining þeirra skapað tækifæri til skilvirkari og markvissari stjórnsýslu og þjónustu auk þess sem aðgengi íbúa að þjónustu verði jafnara með áherslu á aukna þjónustu við dreifbýlið. Vísbendingar eru um að fjárhagur sameinaðs sveitarfélags verði sterkur og fjárfestingageta betri en hjá hvoru sveitarfélagi um sig, en til viðbótar munu 600 milljóna króna sérstök sameiningarframlög á næstu árum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skapa aukið svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi. Þá eru jafnframt vísbendingar um að árleg framlög Jöfnunarsjóðs hækki um fimm milljónir króna á ári í sameinuðu sveitarfélagi. Það er álit nefndarinnar að sameiningin muni hafa fleiri kosti í för með sér en galla og henni fylgi mörg tækifæri sem annars stæðu sveitarfélögunum ekki til boða.

Álit nefndarinnar má lesa í heild sinni hér.

Breiðfirðingar ? Allar upplýsingar á vefsíðu nefndarinnar
 
Ekki liggur fyrir nafn á nýju sveitarfélagi ef af sameiningu verður. Nefndin hefur unnið með vinnuheitið Breiðfirðingar, en þónokkrar hugmyndir að nafni bárust frá íbúum í gegnum samráðsgáttina sem stóð opin í kjölfar samráðsfunda í desember.
Allar helstu upplýsingar varðandi sameiningarviðræður og fréttir af framvindu mála má finna á vefsíðunni helgafellssveit.is. Síðan var sérstaklega hönnuð til að halda utan um upplýsingar varðandi verkefnið og miðla til íbúa. Einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir í gegnum síðuna.
Næstu skref
 
Fyrir samstarfsnefndinni liggur áframhaldandi vinna að mótun nýs stjórnskipulags í sameinuðu sveitarfélagi og ýmsum útfærsluatriðum. Hægt er að fylgjast með fréttum og tilkynningum frá nefndinni á vefnum helgafellssveit.is.
 
Getum við bætt efni síðunnar?