Fara í efni

Kjartan Karvelsson ráðinn hafnarvörður við Stykkishólmshöfn

28.04.2022
Fréttir

Kjartan Jóhannes Karvelsson hefur verið ráðinn hafnarvörður við Stykkishólmshöfn, en alls bárust 6 umsóknir um starfið.

Hrannar Pétursson hefur gengt starfi hafnarvarðar allt frá árinu 2005, en hann ætlar að breyta til og sagði því starfi sínu lausu á dögunum. Hrannari er þakkað kærlega fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu Stykkishólmsbæjar og óskað velfarnaðar í framtíðarstörfum. 

Kjartan er fæddur og uppalinn Hólmari, en flutti til Danmerkur frá Stykkishólmi til að sækja menntun. Hann er lærður mjólkurfræðingur, útskrifaðist með sveinspróf í mjólkurfræði frá Kold Collage í Danmörku árið 2016, en hann er jafnframt formaður Mjólkurfræðingafélag Íslands. Kjartan er með lyftarapróf og löggildingu vigtarmanns. Þá er hann einnig velkunnur starfi hafnarvarðar í Stykkishólmi eftir að hafa sinnt því í sumarafleysingum árin 2009-2012. 

?Ég hef mikinn áhuga á öllu því sem viðkemur starfinu og þegar ég sá stöðu hafnarvarðar auglýsta þá vissi strax að mig langaði að sækja um, enda þekki ég starfið vel eftir að hafa unnið hjá Stykkishólmshöfn með Hrannari Péturssyni áður en ég flutti út. Ég hef mikinn almennan áhuga á nýtingu, gæðum og að styrkja og einfalda hlekki virðiskeðjunnar og mun leggja mitt af mörkum þannig að þjónusta á höfninni komi til með að vera áfram framúrskarandi eins og hún hefur verið hjá Hrannari,? segir Kjartan Jóhannes Karvelsson, nýráðinn hafnavörður. 

Starf hafnarvarðar var auglýst laust til umsóknar þann 18. mars s.l. og umsóknarfrestur var til 28. mars. Sex umsóknir bárust um starfið. Ráðgjafafyrirtækinu Attentus var falið að annast faglegan undirbúning ráðningar og var það mat ráðgjafa Attentus að tveir umsækjendur uppfylltu hæfnikröfur og væru með mesta hæfni umsækjenda. Eftir yfirferð bæjarstjóra var ákveðið að boða umrædda tvo umsækjendur í viðtal. Í kjölfar viðtala skilaði Attentus bæjarstjóra mati á hæfni umræddra umsækjenda ásamt fundargerðum úr viðtölum og mat Kjartan Jóhannes Karvelsson hæfastan.

Í kjölfar fundar bæjarstjóra með Kjartani lagði bæjarstjóri til við bæjarstjórn að staðfesta ráðningu hans í starfið. Bæjarstjórn staðfesti ráðningu Kjartans á 411. fundi sínum, fimmtudaginn 28. apríl.

Þá hefur Jón Páll Gunnarsson verið ráðinn í sumarafleysingar á höfninni.

 
Getum við bætt efni síðunnar?