Fara í efni

Jólasveinar komu færandi hendi

02.12.2020
Fréttir

Það hefur eflaust ekki farið framhjá bæjarbúum að ljósin á jólatrénu í Hólmgarði hafa verið tendruð. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu var ekki unnt að halda hefðbundinn viðburð opinn öllum bæjarbúum að þessu sinni. Þess í stað áttu grunnskólabörn í 1.-4. bekk skemmtilega samverustund í gær, 1. desember, þegar nemendur 1. bekkjar tendruðu ljósin eins og vant er.

Tveir jólasveinar, þeir Bjúgnakrækir og Gluggagægir, gengu á hljóðið þegar börnin sungu saman jólasöngva í garðinum. Þeir komu færandi hendi og gáfu viðstöddum mandarínur og gáfu þar að auki öllum börnum í Stykkishólmi sleða sem stendur nú í Hólmgarði og verður þar yfir hátíðarnar. Samkvæmt Bjúgnakræki er þarna um að ræða gamlan sleða sem þeir bræður hafa ekki not fyrir lengur og þótti honum því tilvalið að gefa börnum í Hólminum sleðann að gjöf. Til gamans málaði hann mynd af jólasveini, snjókarli og hreindýri og lét fylgja sleðanum.


Sleðinn sem nú stendur í Hólmgarði.

Bæjarstjóri tók á móti börnunum þegar þau mættu í Hólmgarðinn og sagði þeim m.a. frá því að nú væri jólatréð íslenskt en ekki innflutt frá Noregi eins og löng hefð hefur verið fyrir. Börnin skemmtu sér vel í garðinum og voru hæstánægð með gjöfina frá Bjúgnakræki og bræðrum hans. Eins og vant er voru spiluð jólalög og dansað í kringum tréð eftir að ljósin voru tendruð eins og sjá má á myndum hér að neðan.

Getum við bætt efni síðunnar?