Fara í efni

Íbúafundur um deiliskipulag í miðbæ Stykkishólms og Fjöregg í Súgandisey

11.03.2021
Fréttir

Íbúafundur um deiliskipulag í miðbæ Stykkishólms og Fjöregg í Súgandisey verður haldinn í sal Amtsbókasafnsins við Borgarbraut 6, miðvikudaginn 17. mars kl. 17.00. Fundinum verður jafnframt streymt beint á streymisveitu Stykkishólmsbæjar sem hægt er að komast inn á hér.
 
Í upphafi fundarins verður kynning og samráð með íbúum og hagsmunaaðilum vegna vinnslu deiliskipulags austan við Aðalgötu, samkvæmt 8. kafla skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagstillagan er unnin af teiknistofunni Glámu-Kími og hefur verið í vinnslu frá því að skipulagslýsing var auglýst í nóvember 2019. Tillöguna má nálgast hér.

Tillagan afmarkast af Víkurgötu og Aðalgötu til vesturs, Austurgötu til norðurs og lóðamörkum húsa við Skúlagötu til austurs. Aðdragandi skipulagsgerðarinnar er sá að hagsmunaaðilar í miðbænum óskuðu eftir byggingarlóðum á svæði þar sem ekki var til deiliskipulag. Megin markmið skipulagsvinnunnar er að skilgreina nýjar lóðir og byggingarreiti á þann hátt að þær styrki enn frekar fallega bæjarmynd Stykkishólms.

Næsta skref í skipulagsvinnunni er að fullvinna tillöguna og leggja hana fyrir bæjarstjórn til samþykktar í 6 vikna auglýsingaferli samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á auglýsingatíma er hagsmunaaðilum svo formlega gefinn kostur á að koma með athugasemdir.
Í lok fundarins verður vinningstillaga samkeppninnar um áfangastað í Súgandisey, Fjöreggið, kynnt en Stykkishólmsbær hlaut á dögunum veglegan styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í skipulag og framkvæmd áfangastaðar í Súgandisey.

Fundargestir sem mæta til fundarins eru vinsamlega beðnir um að bera andlitsgrímur á fundinum og virða aðrar sóttvarnarreglur sem í gildi eru.
Upplýsingar um sóttvarnarreglur:

Almennar fjöldatakmarkanir eru 50 manns samkvæmt reglum um samkomutakmarkanir sem tóku gildi 24. febrúar. Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, að undanteknum skólum og ákveðnum viðburðum þar sem gestir sitja í bókuðum sætum. Grímuskylda á ekki við um börn fædd 2005 eða síðar. Allt að 200 manns mega vera viðstaddir ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum.

  • Heimiluð nándarmörk milli ótengdra aðila eru nú 1 metri, að uppfylltum skilyrðum.
  • Gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra.
  • Þátttaka allra gesta skal skráð þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer.
  • Allir skulu nota andlitsgrímu og tryggt að fjarlægð milli ótengdra aðila sé meiri en 1 metri.
  • Heimilt er að hafa hlé á sýningum en áfengisveitingar og áfengissala á viðburðum er óheimil.
  • Koma skal í veg fyrir hópamyndanir, jafnt fyrir og eftir viðburð og í hléi.

Ath! Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert framantalinna skilyrða gildir reglan um 50 manna hámarksfjölda á viðburðinum.

Getum við bætt efni síðunnar?