Gráakúla-Hraunflöt, útskriftarferð
Það voru 18 börn og örlítið færri fullorðnir sem lögðu á fjallið 26. maí s.l. í útskriftarferð elstu nemenda leikskólans. Leiðin upp á Gráukúlu var farin í smá áföngum því stoppa þurfti til að taka myndir og fá sér vatnssopa annað slagið. Allir sem lögðu á fjallið fóru á toppinn. Síðan var gengið áfram hringinn niður í brekku vestan megin þar sem var smá bananapása. Því næst var haldið áfram inn í hraunið að skemmtilegum berggöngum ,,Álfheimum". Þegar komið var niður á flötina var haldið að skálanum þar sem nestið beið okkar. Skellt var í grillaðar pylsur og meðlæti. Við fórum svo í fjársjóðsleit og lékum okkur í hrauninu og á flötinni. Veðrið lék við okkur þennan dag en allt var mjög þurrt og rykugt eftir langvarandi þurrkatíð. Leikskólinn þakkar þeim foreldrum barnanna sem komu með í ferðina kærlega fyrir aðstoðina. Myndir úr ferðinni má sjá á myndasíðunni á heimasíðu leikskólans.