Góðar fréttir frá félagsmiðstöðinni X-inu
Söngkeppni SamVest
Miðvikudaginn 21. apríl fór fram söngkeppni SamVest sem er undankeppni 9 félagsmiðstöðva á Vesturlandi, fyrir lokakeppni yfir landið allt á vegum Samfés, sem ráðgert er að halda 9. maí í bíóhöllinni Akranesi og að þessu sinni í beinni á RÚV.
Félagsmiðstöðvarnar sem standa að SamVest stamstarfinu eru Arnardalur Akranesi, Óðal Borgarbyggð, Hreysið Dalabyggð, Eden Grundarfirði, 301 Hvalfjarðasveit, Skrefið Reykhólahrepp, Afdrep Snæfellsbæ, Ozon Strandabyggð og síðast en ekki síst X-ið Stykkishólmi.
Undankeppnin átti að fara fram í samkomuhúsinu Grundarfirði og að þessu sinni án áheyrenda og með því að streyma keppninni út til félagsmiðstöðva, sem gátu þá skipulagt opnanir tengdar viðburðinum. Tveimur dögum fyrir keppni var tekin ákvörðun um breytt fyrirkomulag. Í ljósi aðstæðna var ákveðið að blanda ekki unga fólkinu saman af þessu stóra svæði og brugðið á það ráð að taka upp atriðin og senda inn. Myndböndin voru svo klippt saman í eina góða keppni sem streymt var út. Þannig var hægt að halda úti viðburði og klára keppnina.
Í ár keppti fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Helga Sóley Ásgeirsdóttir úr 8. bekk og eru henni færðar þakkir fyrir þetta stóra skref. Hún flutti lagið Hvað er ástin? úr smiðju Frikka Dórs og Jóns Jónssonar en lagið var samið fyrir leikritið Shakespeare verður ástanginn sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Helga sá sjálf um undirspil á píanó.
Helga stóð sig frábærlega og endaði í öðru sæti. Með þessum árangri tryggði hún sinni félagsmiðstöð áframhaldandi skemmtun með því að ná sæti inn í aðalkeppnina 9. maí. Vonandi fylgjast nú allir Hólmarar spenntir með sínum keppanda í beinni á RÚV.
Hér má sjá flutning Helgu Sóleyjar
Vökunótt
Tillaga kom frá tómstunda og félagsmálavali grunnskólans að slá saman opnun fyrir söngkeppnina og vökunótt.
Viðburðurinn hófst því í félagsmiðstöðinni, Skólastíg 11, kl. 19:00 með því að horft var saman á söngkeppnina og boðið upp á pizzur frá Skúrnum. Að lokinni söngkeppni var fylgst með kvennaleik Snæfells í beinni. Eftir það færði hópurinn sig í íþróttamiðstöðina þar sem farið var í leiki og keppt í nokkrum greinum. Eftir að allir höfðu tekið vel á því var í boði að skella sér í innisundlaugina. Vökunóttin stóð yfir til kl. 03:00 aðfarnótt fimmtudags en þá voru allir keyrðir heim. Mætingin var frábær eða 28 ungmenni af 31. í 8.-10. bekk.