Fara í efni

Geggjuð stemmning í Stykkishólmi - Opnunarhátíð á hótelinu

14.09.2021
Fréttir

Borið hefur á töluverðri umfjöllun um Stykkishólm á landsdekkandi fjölmiðlum undanfarið. Stöð 2 og Vísir fjölluðu til  að mynda um eftirtektarverða fólksfjölgun hér í bæ síðastliðin ár og náðu m.a. tali af Kristjóni Daðasyni, nýjum deildarstjóra Tónlistarskólans, sem lýsti kostum þess að búa í Stykkishólmi og sagði geggjaða stemmningu hér í bæ.

Stöð 2 og Vísir fjölluðu einnig um undravatnið í Stykkishólmi og fengu Arnar, forstöðumann íþróttamiðstöðvar, til að fræða sig um vatnið og kosti þess. Í viðtali við fréttastofu stöðvar 2 bendir Arnar á að vatnið geti ráðið bug á hinum ýmsu húðsjúkdómum. "Það er miklu ódýrara að koma í Stykkishólm í nokkra daga en að þurfa að fara í sólina og liggja erlendis? - segir Arnar og bendir á að algengt sé að fólk leigi sér bústað í og við Stykkishólm og stoppi nokkra daga í einskonar heilsudvöl.

Bítið á Bylgjunni var sent út frá Fosshótel Stykkishólmi sl. föstudag og var þar meðal annars rætt við Jakob Björgvin, bæjarstjóra, um Fjöreggið, og Agnesi Rut, hótelstýru Fosshótel Stykkishólms, um lífið úti á landi.

Hólmurum boðið til hátíðar

Næstkomandi föstudagskvöld mun Bylgjan útvarpa tónleikum með Jóni Jónssyni og Friðriki Dór í beinni útsendingu frá Fosshótel Stykkishólmi. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni af opnun á nýendurbættum ráðstefnu-, tónleika- og veislusal á hótelinu og hefur Fosshótel Stykkishólmur boðið Hólmara sérstaklega velkomna á opnunarhátíð hótelsins komandi föstudag. Á hátíðinni koma fram ýmsir Hólmarar og flytja bæði tónlistaratriði og ávörp. Hátíðin hefst kl. 16:30, dagskrá má kynna sér hér að neðan.

Segja má að Stykkishólmur hafi verið á allra vörum undanfarið og skyldi engan undra, fegurð bæjarins og nágrennis hefur dregið að fjölda ferðamanna, innlenda sem og erlenda þrátt fyrir fordæmalausa tíma. Veðrið í Stykkishólmi hefur þótt einstaklega gott undanfarið og sér vart fyrir endann á því. Í amstri dagsins á fólk til með að missa sjónar á því jákvæða og því er mikilvægt að fá áminningu endrum og eins um ágæti þess að búa í Stykkishólmi. Eins og deildarstjóri Tónlistarskólans komst svo vel að orði " það er bara geggjuð stemmning hérna í bænum".

Hér má sjá dagskrá fyrir opnunarhátíð Fosshótel Stykkishólms:

 
Getum við bætt efni síðunnar?