Fara í efni

Fyrsta skóflustunga tekin að viðbyggingu Leikskólans í Stykkishólmi

15.07.2021
Fréttir

Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að viðbyggingu við Leikskólann í Stykkishólmi. Núverandi leikskóli er með þremur deildum og er nú verið að bæta við fjórðu deildinni til þess að mæta auknum nemendafjölda við skólann. Laus kennslustofa hefur verið nýtt til að bera fjórðu deildina frá árinu 2017, sem þá var orðinn fullsetinn, en í frumhönnun leikskólans var gert ráð fyrir að hægt væri að fjölga deildum skólans um eina. Þá var einnig gert ráð fyrir því í deiliskipulagi hvað varðar nýtingarhlutfall og stærð byggingarreits.
Verkefnið felst í því að fullbyggja nýju deildina að innan sem utan með innréttingum, og öllum tilheyrandi frágangi og skila tilbúnu til notkunar. Verklegar framkvæmdir voru boðnar út í heild sinni í maí 2021. Tvö tilboð bárust í verkefnið og var kr. 57.093.699 tilboð Þ.B. Borg lægst eða um 90% af kostnaðaráætlun. Var því samið við Þ.B. Borg um uppbyggingu deildarinnar. Stefnt er að verklokum í lok febrúar 2022.
Fyrstu skóflustunguna tók Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar, með dyggri aðstoð barnabarns síns Sumarliða Lima. Viðstaddir voru Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri, Björn Sverrisson formaður skóla- og fræðslunefndar, Þorbergur Bæringsson verktaki, Maros Vitos, Páll Þorbergsson, Gunnar Björn Haraldsson, Elísabet Lára Björgvinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri með barnabarn sitt, Berglind Ósk Kristmundsdóttir deildarstjóri Bakka og Steinunn Magnúsdóttir formaður bæjarráðs.

Getum við bætt efni síðunnar?