Fara í efni

Frisbígolfvöllur í Stykkishólmi

09.09.2021
Fréttir

Greint var frá því fyrr í sumar að unnið væri að uppsetningu á frisbígolfvelli í Stykkishólmi. Völlurinn var settur upp í lok júlí og notið töluverðra vinsælda síðan. Fyrr í þessari viku kom svo sérfræðingur í þessum efnum til að reka smiðshöggið á völlinn, klára merkingar á holum og setja upp skilti sem kynnir brautirnar fyrir leikmönnum. Auk þess hélt hann lítið námskeið fyrir íþróttakennara og þjálfara á svæðinu svo þeir geti leiðbeint nemendum sínum og kennt helstu undirstöðuatriði.

Völlurinn telur níu holur og er staðsettur á holtinu fyrir ofan íþróttavöllinn og grunnskólann. Fyrsta brautin liggur frá grunnskólanum og er kastað í átt að þjónustuhúsi tjaldsvæðis. Völlurinn rekur sig svo í kringum holtið og upp á það. Völlurinn er ekki aðeins hugsaður sem góð afþreying og hreyfing fyrir heimafólk heldur er frísbígolf einnig vinsælt á meðal ferðafólks.

Leikreglur

Leikreglur eru einfaldar, folf er spilað líkt og hefðbundið golf nema með frisbídiskum. Köstin sem tekur að koma diskinum í körfuna eru talin og takmarkið er að fara allar brautir í sem fæstum köstum. Fyrsta kast er tekið af merktum teig og er það næsta tekið þar sem diskurinn liggur og þarf sá fótur sem er nær körfu að vera þar sem diskurinn lá. Skipta má um diska á milli kasta. Sá spilari sem lengst er frá körfu tekur fyrsta kast. Tillitssemi er stór hluti af leiknum. Sanngjarnt er að mótspilari þinn fái að kasta án truflunar, það sama myndir þú vilja. Ekki kasta fyrr en þú ert viss um að flug disksins og lending hans trufli ekki hina spilarana. 
Nánari upplýsingar um frísbígolf og staðsetningu valla má finna inn á heimasíðu íslenska frisbígolfsambandsins.

 

Getum við bætt efni síðunnar?