Fara í efni

Framkvæmdir við körfuboltavöll á skólalóð

07.07.2021
Fréttir

Framkvæmdir við nýjan körfuboltavöll á lóð Grunnskólans í Stykkishólmi hófust í gær, 6. júlí, þegar félagar í Umf. Snæfell mættu til að taka niður það sem eftir stóð af hreystivellinum, en þar mun rísa nýr og glæsilegur körfuboltavöllur.

Uppbygging körfuboltavallarins er samstarfsverkefni Stykkishólmsbæjar og Umf. Snæfells í anda samstarfs beggja aðila um að efla íþróttastarf í Stykkishólmi. Um er að ræða þriðja áfanga uppbyggingar á skólalóðinni sem hófst árið 2019. Völlurinn verður blár og rauður á litinn, 28x 15m að stærð, á honum verða 2 stórar körfur og 4 minni sem hægt er að spila á þvert á hvorum helmingi vallarins. Gert er ráð fyrir að völlurinn verði klár fyrir haustið.

Á hreystivellinum var gervigrasteppi sem búið er að taka upp og íbúum stendur til boða að hirða.  Áhugasamir gervigrasunnendur geta því mætt á svæðið, skorið sér bút af teppinu og tekið með heim. Teppið verður ekki hreyft af höndum bæjarins fyrr en föstudaginn 9. júlí, þá verður efnið fjarlægt. Fyrstur kemur fyrstur fær.

Getum við bætt efni síðunnar?