Frá skólaslitum
Grunnskólanum í Stykkishólmi var slitið þann 3. júní. Haldnar voru tvær athafnir. Fyrst fyrir 1. - 7. bekk á Amtsbókasafninu og var foreldrum 1. bekkjar heimilt að sækja athöfnina. Síðar um daginn voru skólaslit fyrir 8. - 10. bekk í Stykkishólmskirkju og var foreldrum þeirra heimilt að sækja athöfnina.
Líkt og síðasta skólaár hefur þetta skólaár verið mjög sérkennilegt. Við vorum rétt komin fram í september þegar við þurftum að fara í hólfaskiptingu þar sem smit kom upp í samfélaginu. Þá þurftum við aftur að hólfaskipta í nóvember og lukum skólaárinu þannig. Eflaust muna nemendur vel eftir því þegar þeir skólinn þeirra var í Íþróttamiðstöðinni. Við erum afskaplega þakklát bæði Nönnu á bókasafninu og Arnari í íþróttahúsinu sem gerðu okkur kleift að gera allar þær breytingar sem við þurftum að gera til þess að koma til móts við sóttvarnarreglur.
Reynsla okkar af Covid tímanum á síðasta skólaári varð til þess að við gerðum breytingar á skólastarfinu. Við unnum eftir nýjum tímasettum, vorum með list- og verkgreinar í hringekju þannig að nemendur voru í hverri grein í níu vikna lotum í 1. - 4. bekk. Það var gert til þess að færri starfsmenn kæmu að þeim hverju sinni. Þá vorum við með færri nemendur úti í frímínútum og í mötuneyti. Allar þessar breytingar gengu vel en engar breytingar eru þannig að ekki komi upp einhverjir hnökrar. Við höfum því á undanförnum vikum verið í endurskoðun til þess að sjá hvernig við getum gert enn betur.
Eftirfarandi verkefni hafa skipað stóran sess í vetur:
- Ákveðið hefur verið að fara á fullt í verkefnið Heilsueflandi grunnskóli og var stefnan unnin í vetur. Hún verður sett á heimasíðu skólans svo fólk geti kynnt sér hana
- Fyrir nokkru síðan var kynnt nýtt fyrirkomulag varðandi val á unglingastigi til þess að koma enn betur til móts við nemendur.
- Í átthagafræðinni fóru líkt og í fyrra allir nemendur í vorferð um næsta nágrenni. Við stefnum á að halda áfram með það skemmtilega verkefni.
- Skólinn var tekinn út í ytra mati í febrúar. Þar kom fram að margt þarfnast úrbóta. Unnin hefur verið umbótaáætlun sem kynnt verður Menntamálastofnun eftir helgi. Áætlunin verður lögð fyrir skólaráð, skóla- og fræðslunefnd og að lokum sett inn á heimasíðuna og getið þið nálgast hana þar.
- Ásdís Árnadóttir sem hefur séð um útikennslu í vetur sótti um styrk í Yrkju sem er sjóður fyrir skóla sem vilja gróðursetja. Við vorum svo heppin að fá styrk frá þeim og munu um 200 plöntur koma til okkar í ágúst. Við höfum farið þess á leit við bæjaryfirvöld að fá hentugan stað þar sem okkur langar að gróðursetja og búa til skemmtilegan lund í göngufæri við skólann. Einnig höfum við fengið vilyrði fyrir því að hirða stofninn af næsta jólatré sem ætlunin er að saga niður í hentug sæti.
- Eins og þið vitið þá höfum við verið með umsjónarkerfið Námfús. Það hefur hins vegar ekki alltaf reynst okkur nógu vel. Í vetur vorum við að skoða að taka upp kerfi sem heitir Vala og er fyrir lengda viðveru/Regnbogaland og mötuneyti en það kerfi er á vegum Advania. Þeir eru einnig með Innu sem er fyrir framhaldsskólann. Í því samtali kom í ljós að þeir vilja þróa Innu fyrir grunnskólann og þau buðu okkur að koma í samstarf. Við erum mjög spennt fyrir því og væntum því að það kerfi muni þjóna okkur betur.
Að lokum er búið er að ákveða að halda áfram með framkvæmdir á skólalóðinni og erum við afskaplega ánægð með það. Í sumar verður farið í að setja upp körfuboltavöll.
Mannabreytingar
Nokkrar mannabreytingar verða fyrir næsta skólaár eins og eðlilegt má teljast á stórum vinnustað.
- Þóra Margrét Birgisdóttir er nýr aðstoðarskólastjóri. Hún mun taka við nýja starfinu þann 1. ágúst. Ég hlakka mikið til samstarfsins við hana. Við þekkjum hvor aðra mjög vel svo ég á ekki von á öðru en að það muni allt ganga vel.
- Þá er ykkur kunnugt að hún Anna Margrét okkar hefur verið að glíma við veikindi. Við vonum að við fáum hana til okkar aftur sem fyrst á næsta skólaári og óskum henni velfarnaðar.
- Gunnar Gunnarsson hefur ákveðið að setjast í helgan stein. Við þökkum honum áralangt og farsælt starf við skólann. Þessi síungi og glettni maður hefur heillað margan nemandann á sínum ferli og alltaf náð að endurnýja starfsþrek sitt. Við vonum að hann skilji eftir þessa uppskrift fyrir okkur einhvers staðar á góðum stað í skólanum.
- Sigrún Ársælsdóttir hefur einnig ákveðið að setjast í helgan stein. Ég kvaddi hana formlega á fyrri skólaslitinum í morgun. Við munum sakna hennar yfirveguðu framkomu. Hún er alltaf svo jákvæð og bóngóð.
- Sigríður Ólöf Sigurðardóttir hefur sagt stöðu sinni lausri. Sigga Lóa er skapandi og frjór kennari sem hefur náð að gera dönskuna að skemmtilegu fagi. Geri aðrir betur.
- Una Særún Karlsdóttir hefur ákveðið að flytja á höfuðborgarsvæðið. Hún hefur komið vel inn í hópinn þannig að okkur finnst eins og hún hafi alltaf verið hérna.
- Að lokum mun Lilja Írena Guðnadóttir láta af störfum eftir veikindaleyfi. Við þökkum henni fyrir störf hennar og við óskum þeim öllum velfarnaðar á komandi árum.
Búið er að ráða í allar auglýstar stöður.
Í stöðu smíðakennara höfum við ráðið Heimi Laxdal Jóhannsson en hann hefur verið í stöðu forfallakennara í vetur. Þá höfum við ráðið Ágústu S. Jónsdóttur í raungreinar á unglingastigi, Bergdísi Eyland Gestsdóttur í heimilisfræðistöðuna og mun hún einnig kenna sköpun. Í stöðu tungumálakennara á miðstigi og unglingstigi höfum við ráðið Þórhildi Eyþórsdóttur. Rebekka Rán Karlsdóttur mun koma inn stöðu forfallakennara en hún hefur leyst íþróttakennsluna í vetur og að lokum mun Ingunn Alexandersdóttir leysa stuðningsfulltrúastöðuna á unglingastigi en hún sinnti kennslu í stærðfræði og náttúrufræði í vetur. Við hlökkum til samstarfsins við þau.
Á vormánuðum samþykkti bæjarstjórn Stykkishólms þá breytingu að frá og með næsta skólaári verða grunn- og tónlistarskóli samreknir. Það þýðir að yfir skólunum verður einn skólastjóri sem vinnur í teymi með aðstoðarskólastjóra grunnskólans og deildarstjóra tónlistarskólans, Kristjóni Daðasyni. Sú sem hér stendur hlakkar til samstarfsins í teyminu með Þóru Margréti og Kristjóni Daðasyni.
Í vetur eins og fyrri ár hefur safnast upp þó nokkuð mikið af óskilamunum eins og fatnaði og nestisboxum. Ég vil biðja ykkur foreldra um að koma við í skólanum og sækja það sem börn ykkar eiga. Við munum láta óskilamunina standa í anddyrinu í tvær til þrjár vikur. Eftir það komum við þeim þar sem þeirra er þörf. Þá vil ég biðja ykkur um að athuga hvort það leynast á heimilum einhverjar bækur merktar skólanum eða bókasafninu og skila þeim ef einhverjar eru.
Að lokum vona ég að þið hafið það öll gott í sumar og hlakka til að hitta ykkur hress og kát föstudaginn 24. ágúst en þann dag verður skólinn settur.
Berglind Axelsdóttir, skólastjóri