Fara í efni

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar samþykkt ? Öflugur rekstrarlegur viðsnúningur eftir Covid-19

15.12.2021
Fréttir

Verulegur jákvæður viðsnúningur verður í rekstri Stykkishólmsbæjar strax á næsta ári samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025, gangi áætlanir eftir. Er um að ræða öfluga viðspyrnu í rekstri sveitarfélagsins, m.a. vegna sölu fastafjármuna í tenglum við áform um uppbyggingu nýrra félagslegra íbúða, eftir að mikilla áhrifa gætti í starfsemi og rekstri sveitarfélagsins vegna Covid-19 veirunnar, þó svo áfram sé gert ráð fyrir áhrifum hennar í áætlunum. 
Í fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 108,9 milljónir króna á árinu 2022 og að áætlað veltufé frá rekstri aukist um 12,3 milljónir króna úr 135,3 milljónum 2021 í 147,6 milljónir árið 2022. Í sölulegu samhengi má benda á að rekstrarniðurstaða Stykkishólmsbæjar var neikvæð frá 2006 til 2011, að undanskildum 3 millj. hagnaði 2007. Á árinu 2012 var 4 millj. kr. hagnaður, tap á árinu 2013, en hagnaður frá árinu 2014 til 2019, að undanskyldu árinu 2017, þar sem Lífeyrissjóðurinn brú breytti stöðunni, en árin 2020 og 2021 var neikvæð niðurstaða í rekstri sveitarfélagsins vegna Covid-19 faraldursins.
Á súluriti hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir rekstrarniðurstöðu Stykkishólmsbæjar (A og B hluta) árin 2006-2020 samkvæmt rauntölum, útkomuspá 2021 og fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2022-2025:

 

FORSENDUR OG MARKMIÐ FJÁRHAGSÁÆTLUNAR
Fjárhagsáætlun ársins 2022-2025 er unnin út frá forsendum og markmiðum sem bæjarstjórn setti sér í september og hefur þeim, með áorðnum breytingum, verið fylgt við vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri bæjarins á sama tíma og þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið. 
Markmið fjárhagsáætlunar 2022-2025 eru að tryggja jafnvægi í rekstri á tímabilinu, þ.e. að heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B hluta séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, framlegðarhlutfall verði um 16%, að veltufjárhlutfall nálgist 0,6 sem fyrst, handbært fé verði á bilinu 90-100 millj. í árslok 2022 og að rekstur skili nægjanlegum fjármunum til að standa undir afborgunum langtímalána. Fjárfestingaáætlun gerir ráð fyrir að heildarfjárfesting tímabilsins nemi 512,5 millj. kr., lántaka nemi 660 millj. kr. og afborganir nemi 844,5 millj. kr. Gangi áætlanir eftir mun skuldahlutfall og skuldaviðmið sveitarfélagsins lækka og gera áætlanir ráð fyrir að skuldaviðmið verði í kringum 117,4% strax í lok árs 2022 og 108,4% í árslok 2025.
Í forsendum er gert ráð fyrir 3,3% verðbólgu yfir árið 2022, 2,6% árið 2023 og 2,5% 2024 -2025, í samræmi við þjóðhagsspá sem gefin er út af Hagstofu Íslands. Gert er ráð fyrir því að meðal raunvextir vextir lána verði um 3,1% á árunum 2022-2025. Auk framangreinds gera forsendur ráð fyrir því að gjaldskrár Stykkishólmsbæjar muni almennt hækka um 4% árið 2022 (matvæli 5%), en 3,0% á hverju ári á tímabilinu 2023-2025. Þrátt fyrir almenna hækkun um 4% á árinu 2022 samþykkti bæjarstjórn á fundin 9. desember sl. að lækka gjaldskrárhækkun í leikskólanum í Stykkishólmi úr 4% í 3% til þess að koma betur til móts við foreldra í Stykkishólmi í samræmi við stefnu Stykkishólmsbæjar um að skapa hér fjölskylduvænt umhverfi. 
Í forsendum má sjá gert er ráð fyrir hærri útsvarstekjum á árinu 2021, samkvæmt útgönguspá sem nemur 12,8%. Skýrist það m.a. af því að tekjuáætlun síðustu fjárhagsáætlunar, sem samþykkt var árið 2020, var mjög varfærin í ljósi Covid-19 faraldursins og þeirrar óvissu sem þá ríkti. Af þeim sökum liggur nú þegar fyrir að útsvarstekjur Stykkishólmsbæjar eru langtum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu 2021 eða sem nemur um 50 milljónum króna. Fjárhagsáætlun 2022-2025 er að sama skapi varfærin og raunsæ, þar sem gert er ráð fyrir að tekjur hækki um 5,3% á árinu 2022, en þar er tekið mið af upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélag. Í fyrirliggjandi áætlun er gert ráð fyrir 1% tekjuaukningu á árinu 2023, engum tekjuvexti á árinu 2024 og 3,5% tekjuvexti á árinu 2025. 
Til samanburðar má hér fyrir neðan sjá breytingu á útsvarstekjum á milli ára í sögulegu samhengi (frá 2007 til 2020):

Helstu lykiltölur fjárhagsáætlunar Stykkishólmsbæjar 2022-2025 (A og B hluti): 

 

ÁLAGNING Á ÍBÚA OG FYRIRTÆKI ? LÆKKUN Á FASTEIGNASKÖTTUM, LÓÐARGJÖLDUM OG HOLRÆSAGJÖLDUM
Helstu breytingar á álagningu íbúa eru þær að álagningarstuðull fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkar hjá Stykkishólmsbæ á árinu 2022 úr 0,43% í 0,42% og lækka álagningarprósenta lóðarleigu íbúðarhúsnæðis úr 1,04% í 0,97% ásamt lækkun á álagningarprósenta holræsagjalds húseigna í A-flokki verði 0,17%. Þannig er komið til móts við íbúa til þess að tryggja að heildarfasteignagjöld hækki ekki óhóflega vegna hækkunar á fasteignamati. Álagningarhlutfall úrsvars verður óbreytt milli ára.

 

Álagning fasteignaskatta í C-flokki (atvinnuhúsnæði) er óbreytt milli ára, þ.e. 1,57%, en álagningarprósenta lóðarleigu á atvinnuhúsnæðis lækkar úr 2,15% í 2,00% og þá mun jafnframt álagningarprósenta holræsagjalds húseigna í C-flokki lækka úr 0,21% í 0,20%. Álagning gjalds í B-flokki verða óbreytt milli ára.

 

 

FJÁRFESTINGAR ? FJÁRFEST TIL FRAMTÍÐAR Í NAUÐSYNLEGUM INNVIÐUM
Samkvæmt tillögu um framkvæmdir og fjárfestingar á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir að um 512,5 milljónum kr. verði varið til framkvæmda og fjárfestinga, en í fyrirliggjandi áætlun um fjárfestingarliði vegna ársins 2022 verður lögð áhersla á fjárfestingu í innviðum og bættri þjónustu við íbúa og í fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2022 ber hæst hlutdeild Stykkishólmsbæjar við breytingar á Sjúkrahúsinu vegna uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis að Austurgötu 7. Í áætlunum er reynt að lágmarka nýjar lántökur á næstu fjórum árum en gert er ráð fyrir 660 milljónum kr. í lántökum á árunum 2022 til 2025 en á sama tímabili munu afborganir lána nema 844,5 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar hækki í fjárhagsáætlun árin 2022 og 2023 en fari síðan lækkandi og verði um 2,7 ma.kr. í árslok 2025.

Helstu fjárfestingar á árinu 2022 eru:

  • Lokið verður við flutning hjúkrunarrýma frá Dvalarheimili Stykkishólms yfir á nýtt Hjúkrunarheimili að Austurgötu 7 og mun Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) sjá um reksturinn frá og með 1. júní 2022.
  • Hafist verður handa við gatnagerð í Víkurhverfi.
  • Byrjað verður á uppbyggingu félagslegra íbúða. Staðsetning er ekki ákveðin, en  Víkurhverfi eða við Leyni koma til greina.
  • Við flutning hjúkrunarrýma á HVE losnar rými við Skólastíg 14 og verður þá hafist handa við umbreytingar á húsnæðinu. Annars vegar verður um að ræða íbúðir og hins vegar þjónusturými fyrir íbúa Stykkishólms. Stefnt er að þar verði hjarta í þjónustu við 60+ í Stykkishólmi. 
  • Haldið verður áfram í stígagerð og umhverfisverkefni ? t.d. áframhaldandi uppbygging í Skógræktinni og Grensás, ásamt öðrum verkefnum.
  • Lokið verður við fyrsta áfanga í fráveituframkvæmdum í Maðkavík.

Önnur framkvæmdarverkefni 2022

  • Lokið verður við byggingu nýrrar deildar við Leikskóla Stykkishólms.
  • Sett verður upp gjaldtökutæki fyrir bílastæði á hafnarsvæðinu.
  • Haldið verður áfram að bæta aðstöðu í Íþróttamiðstöðinni 
  • Sett verður nýtt þak á Tónlistaskólann
  • Sett verður iðnaðarhurð Flugstöðinni, þannig að hægt sé að nýta sem geymslu og gera endurbætur.
  • Öryggismyndavélar verða settar upp: Ráðhúsið, Grunnskóla, Tónlistarskóla og Leikskóla ásamt á hafnarsvæðinu.
  • Haldið verður áfram að laga götur og gangstéttir.
  • LED-væðing ljósastaura í Stykkishólmi heldur áfram, en Stykkishólmsbær tók við ljósastaurum af Rarik á árinu 2019 og var fljótlega byrjað að skipta út gömlum lömpum og LED lappar settir í staðinn. Þetta sparar rekstrakostnað á götulýsingu í Stykkishólmi. 
  • Haldið verður áfram uppbyggingu á Súgandisey ? uppbyggingin verður að öllu leyti fjármögnun af ríkissjóði á næsta ári.

 

 

Fjárfestingar á árunum 2022 til 2025 nema um 86-175 m.kr. á ári að teknu tilliti til tekna vegna gatnagerðargjalda og styrkja.

 

SKULDAVIÐ OG REKSTRARJÖFNUÐUR
Samkvæmt 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 ber sveitarstjórnum að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og skulda sé þannig háttað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Í lögunum er skilgreint viðmið um rekstrarjöfnuð (jafnvægisregla) og skuldir (skuldaviðmið).
Samkvæmt áætlun er stefnt er að því að tryggja að skuldaviðmið og skuldahlutföll séu að lækka á tímabilinu. Hvað skuldaviðmið varðar þá er miðað við að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta samkvæmt sveitarstjórnarlögum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Þá er heimilt að taka tillit til sérstækra skuldbindinga sem heimilt er að draga frá heildarskuldum svo sem skuldbindinga vegna hjúkrunarheimila fyrir ríkissjóð og hluta lífeyrisskuldbindinga. Gangi áætlanir eftir mun skuldahlutfall og skuldaviðmið sveitarfélagsins lækka og gera áætlanir ráð fyrir að skuldaviðmið verði í kringum 117,4% strax í lok árs 2022 og 108,4% í árslok 2025.
Hér má sjá þróun á skuldaviðmiði frá árinu 2012 til 2020 (rauntölur), útgönguspá ársins 2021 og skuldaviðmið samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2022-2025. 

Hvað skuldahlutfall varðar þá hækkar það lítillega á árunum 2022 og 2023 en lækkar á árunum 2024-2025 og verður 130% í árslok 2025. Áætlað er skuldahlutfall í árslok 2021 verði 138%. Þannig er gert ráð fyrir að skuldahlutfall verði á svipuðum stað og það var á árunum 2016 og 2017 eða í sögulegu lágmarki. 
Hér má sjá þróun á skuldahlutfalli Stykkishólmsbæjar frá árinu 2006 til 2020 (rauntölur), útgönguspá ársins 2021 og þróun skuldahlutfalls samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2022-2025. 

Hvað varðar jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga þá er vegna neikvæðri afkomu á Covid-19 árunum 2020 og 2021 þá er gert ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður á árunum 2021-2022 verður neikvæður. Hins vegar er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu árin 2022-2025 þannig að rekstrarjöfnuður nær jafnvægi á árunum 2023 til 2025. 

 

ÁFRAM BYGGT Á TRAUSTUM GRUNNI OG FJÁRFEST TIL FRAMTÍÐAR
Bæjarstjórn hefur undanfarin ár haft það að meginmarkmiði að rekstur sveitarfélagsins skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu og auki við framlegð frá rekstri. Þá hefur verið lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri bæjarins á sama tíma og þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið. Hafa þessi markmið náðst sem sést meðal annars í því að sett markmið varðandi jákvæða rekstrarniðurstöðu, ef frá eru skilin Covid- 19 árin 2020 og 2021, á sama tíma og haldið er uppi góðu þjónustustigi í Stykkishólmi. Gert er ráð fyrir því að nú við lok þessa kjörtímabils mun núverandi bæjarstjórn skila af sér sveitarfélagi með stöðugan rekstur sem mun hratt vinna til baka þau áhrif sem Covid- 19 faraldurinn hafði á rekstur sveitarfélagsins og jafnt og þétt ná fjárhagslegum fjárfestingastyrk til að standa undir mikilvægum fjárfestingum næstu ára, en Stykkishólmsbær byggir á traustum grunni og samkvæmt fyrirliggjandi fjárfestingaráætlun er áfram horft til þess að fjárfesta til framtíðar og munu þeir innviðir leggja grunn að enn betri þjónustu í sveitarfélaginu til framtíðar.
Til nánari upplýsinga má hér fyrir neðan finna kynningu bæjarstjóra á markmiðum og helstu stærðum í fjárhagsáætlun, upptöku frá 405. fundi bæjarstjórnar þar sem fáhagsáætlun var samþykkt í síðari umræðu og samþykkta fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025. 
Kynning bæjarstjóra: 

Umfjöllun um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn (upptaka):

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025:


 
 
Getum við bætt efni síðunnar?