Danskir dagar framundan
Danskir Dagar í Stykkishólmi verða haldnir 23.-26. júní næstkomandi með nýju og breyttu fyrirkomulagi, þar sem verið er að blása nýju lífi í þessa rótgrónu bæjarhátíð með því að halda hátíðina í kringum Jónsmessu en áfram með dönskum áhrifum. Árið 2019 var tekin ákvörðun um að færa Danska daga fram í júní og hafa þá í kringum Jónsmessu en þá halda Danir Sankt Hans aften. Jafnframt var ákveðið að bein aðkoma Stykkishólmsbæjar að hátíðinni yrði annað hvert ár, þá á móti Norðurljósahátíðinni. Tímasetning Danskra daga hefur lengi verið til umræðu en upphaflega var hátíðin ætluð til að lengja ferðamannatímabilið í Stykkishólmi, þar sem þess er ekki lengur þörf var ekkert því til fyrirstöðu að færa hátíðina framar á dagatalið og vonast eftir hlýjum sumardögum þegar hún er haldin. Danskir dagar í Stykkishólmi er ein af elstu bæjarhátíðum landsins og hátíðin hefur verið haldin í ágústmánuði, en fólk í ferðaþjónustu og aðrir rekstraraðilar í Stykkishólmi tóku sig saman og héldu fyrstu bæjarhátíðina árið 1994. SMELLTU HÉR TIL AÐ SKOÐA DAGSKRÁ DANSKRA DAGA.
Í ár er það Félag atvinnulífs í Stykkishólmi sem sér um að skipuleggja hátíðina. Margt skemmtilegt verður á dagskrá ber þar að nefna, sjósund, ferðagufu, útieldun, tunnulest, náttúrusmiðju, varðeld, garðpartý, þjóðsagna göngu, bjórhlaup og margt fleira.