Fara í efni

Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla óskar eftir starfsmanni í skráningu

22.12.2020
Fréttir

 

Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla óskar eftir starfsmanni í skráningu

Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla í Stykkishólmi, auglýsir eftir starfsmanni í skráningu safnmuna. Leitað er að einstaklingi sem hefur áhuga og þekkingu á safnastarfi, góð tök á íslenskri tungu og gott tölvulæsi. Um er að ræða framtíðarstarf og er mikilvægt að nýr starfsmaður hafi brennandi áhuga á að læra og tileinka sér þekkingu á innri starfsemi safnsins.

Starfsmaður mun starfa undir stjórn forstöðumanns Byggðasafns- Snæfellinga og Hnappdæla.
Starfshlutfall er 50%.

Hæfniskröfur:

Háskólapróf sem nýtist í starfi æskilegt.

Frumkvæði og sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð.

Lipurð í mannlegum samskiptum, jákvætt viðmót og rík þjónustulund.

Áhugi á sögu og menningu.

Gott vald á íslensku og ensku, bæði í rituðu og töluðu máli.

Hreint sakavottorð.                                                                                                    

Reynsla af því að vinna upplýsingar á tölvutæku formi og góð tölvufærni.

 

Frekari upplýsingar um starfið

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands Ísl. sveitarfélaga.

Umsókn um starfið þarf að fylgja ferilskrá með greinargóðum upplýsingum um störf umsækjenda og menntun. Umsóknarfrestur er til 05.01.2021.
Umsóknum skal skilað til Hjördísar Pálsdóttur forstöðumanns, Hafnargötu 5 eða á netfangið
hjordis@norskahusid.is. Nánari upplýsingar veita Hjördís Pálsdóttir sími 865-4516 og Ríkharður Hrafnkelsson mannauðs- og launafulltrúi, rikki@stykkisholmur.is, sími 433-8100.

_________________________________________________________________________ Snæfellsnes

Á Snæfellsnesi bíður veisla fyrir matgæðinga, paradís fyrir útivistarmenn,nægur efniviður  fyrir ljósmyndara og fjölbreytt afþreying. Segja má að Snæfellsnes sé Ísland í hnotskurn, en það er þekkt fyrir fjölbreytt fegurð og dramatískt landslag. Í aðeins tveggja klukkustunda akstursferð frá Reykjavík er að finna töfrandi upplifun og mikilvægt er að velja, eða dvelja því af nægu er að taka.  Snæfellsnes er prýtt háum og oft á tíðum hrikalegum fjallgarði, sem mótast hefur við eldgos og jökulrof. Á Snæfellsnesi má m.a. finna ölkeldur, lifandi strandmenningu, fjörur og lífleg fuglabjörg, fallegar sveitir, skemmtileg þorp og bæi.   Á Snæfellsnesi er hátt þjónustustig, fjölmargir vel upp byggðir áfangastaðir og ferðaleiðir þar sem búið er að gera náttúru og menningu aðgengilega og íbúar og ferðalangar geta á öruggan hátt notið lífsins.

Töfrandi náttúra 

Yst á Snæfellsnesi trónir hinn dularfulli Snæfellsjökull, þar sem Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001. Hlutverk þjóðgarðsins er að vernda náttúru og landslag, vistkerfi, dýralíf sem og menningararf svæðisins. Á norðanverðu Snæfellsnesi má m.a. finna fjallið Kirkjufell í Grundarfirði sem er eitt mest myndaða fjall Íslands, enda er það alveg einstaklega fallegt. Gamli bærinn í Stykkishólmi hefur vakið athygli víða, meðal Íslendinga sem og erlendis fyrir vel varðveitt hús og menningu. Lifandi strandmenningu er hægt að fá beint í æð í hestaferðum á ströndinni,  í kajakferðum, hvala- eða fuglaskoðun svo fátt eitt sé nefnt. Fjölmargir veitingastaðir vinna með hráefni úr heimabyggð, af landi og úr sjó.

Okkur er annt um umhverfið                                                                              

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa lengi lagt ríka áherslu á samstarf og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum samfélagsins. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður af sveitarfélögunum fimm, frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum í atvinnulífi árið 2014. Hlutverk svæðisgarðsins er að vera farvegur fyrir samstarf og miðla sérstöðu svæðisins og aðdráttarafli til gesta og íbúa. Samstarfið er byggt á sameiginlegri sýn á hagnýtingu svæðisins sem og verndun þess. Að auki hefur Snæfellsnes hlotið umhverfisvottun EarthCheck fyrir samfélög í rúman áratug. Vottunin er staðfesting á því að sveitarfélögin vinna að bættri frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum og er hún endurnýjuð árlega með óháðu mati þriðja aðila.

 

Getum við bætt efni síðunnar?