Fara í efni

Bergur Hjaltalín lætur af störfum eftir farsælan feril

10.05.2021
Fréttir

Bergur J. Hjaltalín, forstöðumaður fasteigna, lét af störfum þann 1. maí sl. eftir 13 ára starf hjá Stykkishólmsbæ.

Bergur tók við nýstofnuðu starfi umsjónarmanns fasteigna þann 1. maí 2008. Undir nýtt starfssvið féllu verkefni fráfarandi húsvarðar grunnskólans auk umsjónar með viðhaldi annarra fasteigna Stykkishólmsbæjar. Bergur minnist þess með bros á vör þegar hann mætti á nýju skrifstofuna sína, sem þá var til húsa í Egilsenshúsi. En nýju starfi fylgdi galtóm skrifstofa. Hans fyrsta verk var því að innrétta skrifstofuna.

En önnur og mikilvægari verk biðu hans. Vinna við endurbætur á Aðalgötu 6, fyrir flutning Eldfjallasafnsins í húsið, var fyrsta stóra verkefnið sem hann stýrði. Þá minnist hann flutnings yngstu bekkjardeildanna úr gamla barnaskólanum yfir í grunnskólann við Borgarbraut veturinn 2009. Við flutninginn losnaði kálfurinn og var ákveðið að Setrið skyldi nýtt fyrir félagsstarf eldri borgara og útbúin íbúð í rýminu sem félagsstarfið hafði notast við á dvalarheimilinu. En á dvalarheimilinu hefur Bergur unnið að viðhaldi og standsetningu allra íbúðanna, og einhverra oftar en einu sinni.

Bergi til halds og traust var Bogi Thorarensen frá 2012 – 2017 og tók þá Jón Salómon við keflinu. Við skipulagsbreytingar árið 2018 færðist starfsemi Þjónustumiðstöðvarinnar einnig undir starfssvið Bergs þar sem hann vann með Jóni Beck og fleiri góðum.

Aðspurður segist Bergur þakklátur fyrir þá velvild sem hann hefur fundið fyrir í starfinu og kveður sáttur. Það hafi alltaf verið gott að koma í vinnuna þótt oft hafi verkefnin verið krefjandi og nefnir þá sem dæmi skólplagnirnar sem mikið verk var að fylgjast með, oft þurfti að hlaupa til og kalla út mannskap á hvaða tíma dags sem var. Hann telur reynsluna sem hann bjó yfir frá fyrri störfum og það að þekkja alla í bænum hafa komið sér til góða í starfinu, svo ekki sé minnst á mikilvægi góðrar samvinnu bæði við starfsfólk Stykkishólmsbæjar og verktaka.

Bergur kveðst ekki kvíða aðgerðaleysi í framtíðinni, nú hefur hann þeim mun meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og hyggst ditta að hinu og þessu sem hefur fengið að sitja á hakanum.

Samstarfsfólk Bergs hélt honum kveðjusamsæti í Ráðhúsinu, föstudaginn 30. apríl á síðasta starfsdegi Bergs. Við það tækifæri voru honum færðar bestu þakkir fyrir einstaklega vel unnin störf í þágu samfélagsins og gott samstarf.

Þá var Bergur einnig plataður á leikskólann síðasta daginn með þeim formerkjum að losa þyrfti stíflu og hann mætti á hlaupum með drullusokkinn. Engin var stíflan en starfsfólk tók vel á móti honum, þökkuðu samstarfið og færðu honum kveðjugjöf.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við tilefnið.

Bergur ásamt bæjarstjóra.
Getum við bætt efni síðunnar?