Bakki tekinn í notkun
Ný viðbygging leikskólans hefur verið tekin í notkun. Í fyrsta sinn nú í morgun mættu foreldrar með börnin sín á nýja Bakka. Að sögn leikskólastjóra var ekki annað að sjá en börnin væru glöð með nýtt umhverfi enda búin að fylgjast grant með framvindu byggingarinnar undanfarna mánuði. Sökum COVID-19 drógust verklok á Bakka þar sem innréttingar og fleira skilaði sér seint úr flutningum. Enn eru minniháttar atriði sem eftir á að ganga frá innanhúss auk þess að ljúka við klæðninguna. Þá er einnig frágangur á lóð er eftir. Viðbyggingin er 72 fermetrar að stærð og hýsir nú 13 börn en nokkur eiga eftir að bætast við hópinn og verða alls 19 börn á bakka. Í sumar verða 92 börn í leikskólanum í Stykkishólmi, aldrei hafa verið svo mörg börn í skólanum síðan hann flutti úr húsnæði St. Franciskusspítala í nýtt húsnæði við Búðanesveg. Næstkomandi föstudag, 29. apríl, verður opinn dagur í leikskólanum. Þá bjóða börnin foreldrum og forráðamönnum í heimsókn á milli kl. 14 og 16 og gefst þá kostur til að skoða Bakka.