Árnasetur hefur starfsemi í Stykkishólmi
Skrifstofu- og frumkvöðlasetrið að Aðalgötu 10 í Stykkishólmi var opnað með formlegri athöfn í gær, mánudaginn 24 maí. Athöfnin hófst með því að lúðrasveit Tónlistarskólans lék nokkur lög undir stjórn Martins. Að því loknu ávarpaði Halldór Árnason viðstadda og afhenti Sigþóri Einarssyni, stjórnarformanni Suðureyja, lykla að húsnæðinu. Eins og kunnugt er stóð félagið Suðureyjar fyrir samkeppni um nafn á setrinu og kom það í hlut Steinunnar Helgadóttur að tilkynna vinningstillöguna við opnunarathöfnina. Skrifstofu- og frumkvöðlasetrið fékk nafnið Árnasetur og var það Hanna Jónsdóttir sem hreppti fyrstu verðlaun en hún var dregin út af þeim fjórum sem lögðu nafnið til. Nafnið vísar til og heiðrar minningu Árna Helgasonar sem vann á árum sínum mikið frumkvöðlastarf Stykkishólmsbæ til heilla. Suðureyjar ehf. var stofnað árið 2020 af 8 fyrirtækjum með sterka tengingu við Stykkishólm og hefur það að markmiði að auðvelda frumkvöðlastarf og tækifæri til fjarvinnu, óháð aðsetri vinnuveitanda og stuðla að því að fjölga íbúum Stykkishólms. Á næstu vikum og mánuðum mun stjórn Suðureyja ehf. kynna, m.a. fyrir brottfluttum Hólmurum, þá aðstöðu sem er í boði og þeir hvattir til að flytja starfsvettvang sinn og heimili til Stykkishólms. Einnig verða forsvarsmönnum stærri stofnana og tæknifyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu kynntir kostir þess að starfsmenn staðsetji sig í Stykkishólmi og að fyrirtækið taki á leigu starfsaðstöðu þar. Hér verður nýtt það kynningarefni sem Stykkishólmsbær hefur látið útbúa fyrir vefmiðla og aðra samskiptamiðla, þar sem kynnt er fjölbreytt þjónusta í Stykkishólmi sem er í boði fyrir einstaklinga og fjölskyldur, framboð á afþreyingu og vistvænt umhverfi og fleira sem gerir Stykkishólm að eftirsóttum stað til að búa og starfa. Þeim sem óska nánari upplýsinga um starfsemi Árnaseturs er bent á að hafa samband við Sigþór Einarsson sei@icelease.is, s. 8978363