Fara í efni

Árnasetur býður frumkvöðlum frítt húsnæði

09.02.2022
Fréttir

Stjórn Suðureyja ehf. hefur ákveðið að nota styrk sem félagið fékk frá Sóknaráætlun Vesturlands til að greiða húsaleigu fyrir frumkvöðla sem eru að hefja eigin rekstur. Hverjum og einum býðst frí aðstaða í Árnasetri í Stykkishólmi í allt að sex mánuði.

Skrifstofu- og frumkvöðlasetrið Árnasetur, að Aðalgötu 10 í Stykkishólmi, opnaði þann 24. maí 2021. Nafnið vísar til og heiðrar minningu Árna Helgasonar sem vann á árum sínum mikið frumkvöðlastarf Stykkishólmsbæ til heilla.

Suðureyjar ehf.  leigja til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla snyrtilega starfsaðstöðu með aðgang að ljósleiðaratengingu og góðri fundar- og kaffiaðstöðu.

Umsóknir sem greini frá fyrirhugaðri starfsemi skal skila til stjórnar Suðureyja ehf.  á netfang sigridur@sjavarborg.is.

HÉR MÁ SJÁ TILKYNNINGU FRÁ SUÐUREYJUM Í HEILD SINNI:

Ertu að byrja með eigin rekstur?
Viltu starfa sjálfstætt?

Þá býðst þér frí aðstaða í Árnasetri í Stykkishólmi til að hefjast handa. Stjórn Suðureyja hefur ákveðið að nota styrk frá Sóknaráætlun Vesturlands til að greiða húsaleigu fyrir frumkvöðla sem eru að hefja eigin rekstur í alls 20 mánuði. Hver og einn getur fengið endurgjaldslausa leigu í allt að 6 mánuði. 
Í boði er skrifborðsaðstaða með góðri nettengingu, aðstaða að sameiginlegri kaffistofu og fundaraðstöðu.
Umsóknir sem greini frá fyrirhugaðri starfsemi skal skila til stjórnar Suðureyja ehf.  á netfang sigridur@sjavarborg.isFyrstur kemur fyrstur fær.

Samstarfssamningur við Matís

Vert er að benda áhugasömum á það að Stykkishólmsbær og Matís gerðu nýverið með sér samkomulag um uppbyggingu samstarfs í Stykkishólmi með áherslu á fræðslu, nýsköpun, rannsóknir og atvinnuuppbyggingu innan sveitafélagsins. Báðir aðilar samkomulagsins munu nýta styrkleika sína og innviði viðkomandi aðila eins og kostur er og getur samningurinn því komið að góðum notum við hin ýmsu verkefni sem sett eru á legg í Stykkishólmi.
Hægt er að kynna sér samstarfssamninginn hér.
Viðvera atvinnuráðgjafa í Stykkishólmi

Helga Guðjónsdóttir, atvinnuráðgjafi á vegum SSV er með reglulega viðveru í Ráðhúsi Stykkishólmsbæjar, næst mánudaginn 21. febrúar kl.13-15. Kjörið er fyrir þá sem hafa hug á að hefja eigin rekstur að leita til atvinnuráðgjafa og fá þar aðstoð með ferlið. Einnig er hægt að setja sig í samband við Helgu í síma 895 6707 eða á netfangið helga@ssv.is

Nú er tækifæri fyrir frumkvöðla eða þá sem stunda störf án staðsetningar til að flytja í Stykkishólm og njóta alls þess góða sem Hólmurinn hefur að bjóða. 
Kynntu þér hvað Hólmurinn býður uppá hér.

 
Getum við bætt efni síðunnar?