Áramótin í Stykkishólmi
Vert er að minna bæjarbúa á að í samráði við lögreglu hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa áramóta- og þrettándabrennum í ár í samræmi við sóttvarnareglur.
Veðrið leikur hinsvegar við okkur þessa dagana og eru áframhaldandi horfur á heppilegu veðri til útivistar næstu daga. Því er um að gera að njóta veðursins og bregða sér í göngu eða út að leika með börnunum. Á gamlársdag er svo útlit fyrir hægan vind og bjart veður víða á landinu, en þó eru líkur á lítilsháttar skúrum eða éljum um landið vestanvert.
Áramótakúlan á gamlársdag - hugmyndir að samverustundum
Gamlárssundið: Sundlaugin er opin 10-12 og því tilvalið að skella sér í gamlársbaðið í frábærri sundlaug. Mikilvægt að taka nokkrar ferðir áður en sest er í pottinn þannig að meira pláss skapist fyrir áramótasteikina.Fjöruferð á gamlársdag: Er ekki tilvalið að skella sér í fjöruferð, fleyta kerlingar og skoða sig um við Breiðafjörð og eyjarnar allt um kring. Þau hugrökkustu geta svo skellt sér í sjósund.
Áramótaskot: Muna að koma við hjá Björgunarsveitinni Berserkjum og kaupa flugelda eða rótarskot.
Gamlársdagsganga: Rölta um Hólminn fallega, kíkja við í búðum og kaupa jafnvel eitthvað fallegt áramótaskraut og nýjaársgjöf fyrir ættingja eða góðan vin.
Gamlársdagsútivera: Skapa pláss fyrir áramótasteikina með hreyfingu, t.d.:
- Ratað í Hólminum, ratleikur í Ratleikja Appinu.
- Renna sér, ef snjórinn heldur sér.
- Renna sér á skautum ef frostið heldur sér.
- Leiðangur um leikvelli í Hólminum.
- Skógar- eða fjallaferð með kakó og smákökur, ef verður og færi leyfa.
?Á gamlársdag er gleði og gaman, saman
BÚM BÚM BÚM?