Fara í efni

112 dagurinn

11.02.2021
Fréttir

Í dag er 112 dagurinn en hann er haldinn árlega 11. febrúar (11.2). 112 dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. 
112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda númer til þess að fá aðstoð í neyð.

Markmiðið með 112-deginum er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.  

Áhersla á öryggi og velferð barna og ungmenna

Í ár verður sjónum beint sérstaklega að barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna. Umfjöllunin tengist vitundarvakningu vegna nýrrar gáttar um ofbeldi í nánum samböndum á 112.is þar sem fjallað verður um efnið frá ýmsum hliðum. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að kynna sér efnið og ræða við börnin um mikilvægi þess að þekkja neyðarnúmerið 112.

Tikynningarskylda almennings og þeirra sem hafa afskipti af börnum starfs síns vegna

Samkvæmt 16.gr. og 17.gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002

Ef þig grunar að barn hefur orðið fyrir ofbeldi, að það búi við óviðunandi aðstæður eða að það sé að stofna heilsu sinni og þroska í hættu þá áttu samkvæmt lögum að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Það geturðu gert með því að hringja í 112. Þetta á líka við um ófædd börn. Tilkynningarskyldan á bæði við um almenning og fólk sem hefur afskipti af börnum vegna starfs síns.

Þegar tilkynnt er kemur fagaðili málinu í farveg og fjölskyldu er veitt stuðningur frá annað hvort barnavernd eða félagsþjónustu. Losaðu þig við áhyggjurnar og beindu þeim í farveg með því að láta vita. Velferð barnsins er alltaf höfð að leiðarljósi.

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga

Meðfylgjandi myndir eru frá deginum í fyrra þegar viðbragðsaðilar hér í bæ prófuðu nýja búnaðinn sem keyptur var fyrir féð sem safnaðist til minningar um Guðmund Kristinsson.

Getum við bætt efni síðunnar?