Stök tilkynning

Fréttatilkynning vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs

Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar fimmtudaginn 23.nóvember var samþykkt samhljóða svohljóðandi  bókun vegna stöðvunar siglinga Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

 

Ferjusiglingar Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir viðræðum við stjórnendur Sæferða vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá Sæferðum vegna bilunar í vélbúnaði Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Ferjan hefur ekki getað siglt og mikil óvissa um hvenær sigling hefst að nýju. Bæjarstjóri leggur fram svohljóðandi bókun sem tillögu bæjarstjórnar.

Siglingar Baldurs gegna mikilvægu og sívaxandi  hlutverki í samgöngukerfinu sem þjónar Vestfjörðum og Breiðafjarðarsvæðinu og þar með Stykkishólmi. Rekstur ferjuhafnarinnar er stór liður í rekstri Stykkishólmshafnar og ferðaþjónustan treystir á siglingar ferjunnar allan ársins hring svo ekki sé talað um þýðingu ferjusiglinganna fyrir einstaklinga, heimilin og  atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skorar á stjórn Sæferða og stjórnendur Eimskipafélags Íslands, sem eiganda ferjunnar, að leita allra leiða til þess að hraða viðgerð á vélbúnaði ferjunnar, eða tryggja annað skip til siglinga um Breiðafjörð svo fljótt sem kostur er. Stöðvun ferjusiglinganna er alvarlegt  tjón fyrir samfélagið við Breiðafjörð og á Vestfjörðum og  því nauðsynlegt að bregðast hratt við og tryggja að ferja sigli að nýju svo komið verði í veg fyrir alvarleg skakkaföll og efnahagsleg áföll  hjá þeim sem njóta þjónustu ferjunnar.

 

Bókun bæjarstjórnar verður komið til stjórnenda Sæferða og er þess vænst að viðbrögð fáist við samþykkt bæjarstjórnar af hálfu stjórnenda Sæferða.

Þetta tilkynnist hér með.

 

Sturla Böðvarsson

Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar