Stök tilkynning

Tilkynning vegna framkvæmda við Leikskólann í Stykkishólmi

Til starfsmanna Leikskólans í  Stykkishólmi, foreldra leikskólabarna og nágranna leikskólans.

 

Svo sem greint hefur verið frá þá er unnið við að undirbúa stækkun Leikskólans í  Stykkishólmi. Ástæður þeirra framkvæmda eru að íbúum fjölgar í bænum. Eftirspurn eftir skólavist fyrir börn sem náð hafa 12 mánaða aldri hefur aukist og stefnir í að verða svo mikil að ekki verður undan því vikist að stækka húsnæði leikskólans.

Til þess að geta brugðist við þessari stöðu á skömmum tíma samþykkti bæjarstjórn heimild til þess að kaupa „lausa kennslustofu“ sem hefur verið í notkun við Listaháskóla Íslands við Skúlagötu í Reykjavík og er talin geta hentað vel fyrir leikskólann okkar með minniháttar breytingum á innréttingum. Bæjarstjórn hefur samþykkt stöðuleyfi fyrir húsið vestan við lóð leikskólans.  Hönnun þessara breytinga er lokið og  samið hefur verið um flutninga skólastofunnar og  ráðinn verktaki.

Framkvæmdir munu hefjast næstu daga og mun  Þorbergur Bæringsson byggingameistari sjá um verkið. Það er von bæjaryfirvalda að þessi ráðstöfun verði til góðs fyrir yngstu skólabörnin og þjónustan sem leikskólinn mun veita foreldrum bæti aðstæður fjölskyldna í bænum. Það er von mín að nágrannar verði ekki fyrir ónæði vegna framkvæmda. Tekið skal fram að í framtíðinni er gert ráð fyrir því að byggja við leikskólahúsið í samræmi við eldri hönnun og þá mun lausa kennslustofan víkja. Undirritaður óskar eftir góðu samstarfi um þetta verkefni og væntir þess að um það geti ríkt góð sátt.

 

Stykkishólmi, 31.ágúst 2017

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri  Stykkishólmsbæjar