Fjarvinna


Staðsettu þig í Stykkishólmi

Störf án staðsetningar

Stykkishólmur er kjörin staðsetning fyrir þá sem stunda störf án staðsetningar. Bærinn er tilvalinn staður jafnt fyrir fjölskyldufólk og aðra. Félags- og menningarlíf blómstrar. Mikið íþróttastarf er starfrækt í bænum sem þekktur er fyrir árangur sinn í körfubolta. Golfvöllurinn í Stykkishólmi býður upp á einstakt útsýni yfir eyjar Breiðafjarðar. Í og við bæinn er fjöldinn allur af fallegum gönguleiðum um óspillta og töfrandi náttúru sem einkennir Snæfellsnesið.

Sterkir innviðir eru lykilforsenda þeirrar fólksfjölgunar og uppbyggingar sem átt hefur sér stað í Stykkishólmi síðustu ár. Í Stykkishólmi er boðið upp á leikskóla fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Grunnskólaþjónusta er fyllilega samkeppnishæf við það sem best gerist annars staðar. Tónlistarskóli og lúðrasveit hafa lengi spilað lykilhlutverk í menningarsögu bæjarins og fá nemendur skólans ósjaldan tækifæri til að koma opinberlega fram. Framhaldsskóli er í Grundarfirði, sem er í 30 mínútna akstursfjarlægð frá Stykkishólmi. Heilsugæslustöð og sjúkrahús er í Stykkishólmi.

Í Stykkishólmi er starfrækt Bónus lágvöruverslun sem býður sama verð og á höfuðborgarsvæðinu. Í bænum er einnig byggingavöruverslun, líkamsrækt, hárgreiðslustofa, snyrtistofa og hágæða matsölustaðir svo fátt eitt sé nefnt.

Orku- og hitaveitukostnaður er sambærilegur því sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu.

Afþreyingu skortir ekki en í Hólminum er m.a. starfsrækt ungmennafélag, golfklúbbur, Lionsklúbbar, kvenfélag og hestamannafélag. Aðstaða er góð fyrir hestamenn og frístundabændur með sauðfé.

Láttu Hólminn heilla þig.


 Kynntu þér Stykkishólm betur á visitstykkisholmur.is

Árnasetur í Stykkishólmi


 

Skrifstofu- og frumkvöðlasetrið Árnasetur, að Aðalgötu 10 í Stykkishólmi, opnaði þann 24. maí 2021. Nafnið vísar til og heiðrar minningu Árna Helgasonar sem vann á árum sínum mikið frumkvöðlastarf Stykkishólmsbæ til heilla.

Suðureyjar ehf.  leigja til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla snyrtilega starfsaðstöðu að Aðalgötu 10 með aðgang að ljósleiðaratengingu og góðri fundar- og kaffiaðstöðu, Þannig hafa þeir sem þar starfa félagsskap og stuðning hver af öðrum. Húsnæðið mætir t.d. fullkomlega þörfum fyrirtækja og stofnana sem auglýsa störf án staðsetningar. 

Í stjórn Suðureyja ehf. eiga sæti Sigþór Einarsson, formaður, Steinunn Helgadóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Fyrirspurnum er beint á netfangið sei@icelease.is

 

Stykkishólmur

 

Stykkishólmur stendur við Breiðafjörð á norðanverðu Snæfellsnesi. Bærinn er í tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og ferjan Baldur brúar yfir til Vestfjarða. Bærinn stendur á Þórsnesi og er bæjarstæðið einstaklega fallegt þar sem tekist hefur að varðveita gömlu bæjarmyndina. Bæjarbúar í Stykkishólmi eru í daglegu tali nefndir Hólmarar og í janúar 2020 voru þeir orðnir 1.209 talsins.

Í Stykkishólmi er gott að búa. Félagslíf blómstrar, samfélagið er barnvænt, vegalengdir eru stuttar og öll helsta þjónusta til staðar.

Verið velkomin!

 

Hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem ætla að flytja í Stykkishólm:

Ráðhús
Ráðhúsið er opið virka daga frá kl. 10:00 til 15:00.
Bæjarstjórn og bæjarráð hafa fundaraðstöðu í Ráðhúsinu sem og nefndir bæjarins.

Minjavörður Vesturlands og Vestfjarða, Náttúrustofa Vesturlands og Háskólasetur Snæfellsness hafa einnig aðsetur í Ráðhúsinu.
Heimilisfang: Hafnargata 3
Sími: 433 8100
netfang: stykkisholmur@stykkisholmur.is

Flutningstilkynning

Tilkynna skal flutning til Þjóðskrár Íslands innan sjö daga eftir að flutt er og er það gert á vefsíðu Þjóðskrár Íslands.
Íslandspóstur fær ekki sjálfvirkar tilkynningar frá Þjóðskrá um flutning og þarf því að láta póstinn vita um breytt heimilisfang.

Hiti og rafmagn

Hitaveita er í Stykkishólmi og sjá Veitur um dreifingu á heitu og köldu vatni. Á heimasíðu Veitna má nálgast upplýsingar um þjónustuna.
Rarik annast orkudreifingu í bænum og er skrifstofan opin frá kl. 8:00 til 16:00 mánudaga – fimmtudaga og frá kl. 8:00 til 15:00 föstudaga.
Heimilsfang: Hamraendar 2
Nánari upplýsingar um þjónustuna má finna á heimasíðu Rarik.

Umhverfismál og sorphirða

Stykkishólmur var fyrsta sveitarfélagið til að taka upp almenna sorpflokkun og heimilissorp er flokkað í svokallað þriggja tunnu kerfi:

Græna tunnan er fyrir öll endurnýtanleg efni, s.s. pappír, plast og málma.
Brúna tunnan er fyrir lífrænan úrgang.
Gráa tunnan er fyrir óflokkanlegan heimilisúrgang.
Hleðslustöð fyrir rafbíla er staðsett á bílastæði íþróttamiðstöðvarinnar.

Smellið hér til að skoða nánari upplýsingar, reglur og leiðbeiningar um sorphirðu í Stykkishólmi.

Menntun

Stykkishólmsbær rekur leik-, grunn- og tónlistarskóla.

Leikskólinn býður upp á vistun frá 12 mánaða aldri, opnunartími er frá kl. 7:45 til 16:30 og sumarlokun eru fjórar vikur.
Grunnskólinn hefst í ágúst og lýkur í byrjun júní. Boðið er upp á lengda viðveru barna í 1.-4. bekk innan skólans.
Í Tónlistarskólanum er hægt að stunda fjölbreytt nám, yngstu börnin fá kennslu í grunnskólanum.

Heilsugæsla

Starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi skiptist í sjúkrahús og heilsugæslustöð.
Afgreiðsla og tímapantanir virka daga kl. 08:00 - 16:00.
Heimilisfang: Austurgata 7
Sími: 432 1200
Vaktsími heilsugæslulæknis 1700.
Neyðarnúmer er 112 - fyrir slys og bráðatilfelli.

Heimasíða HVE

Apótek

Útibú Lyfju er opið kl. 12:00- 18:00 virka daga og 10:00 – 14:00 laugardaga (á sumrin).
Heimilisfang: Aðalgata 24
Sími: 438 1141

Póstþjónusta

Pósturinn er opinn frá kl. 10:00 til 16:30 virka daga.
Heimilisfang: Aðalgata 31
Sími: 580 1200

Bankaþjónusta

Útibú Arion banka er opið frá kl. 12:30 til 16:00 virka daga. Hraðbanki er opinn allan sólarhringinn.
Heimilisfang: Aðalgata 24
Sími: 444 7000

Samgöngur

Strætó sér um almenningssamgöngur til og frá Stykkishólmi. Stoppistöðvar eru tvær, við höfnina og Skúrinn (gamla Olís). Sjá tímatöflur Strætó.
Ferjan Baldur siglir yfir Breiðafjörðinn allt árið um kring. Upplýsingar um ferðir er að finna á heimasíðu Sæferða.