Mannlíf

Mannlíf

Stykkishólmur er stærsti þéttbýliskjarninn á Snæfellsnesi, yst á Þórsnesi. Bæjarbúar í Stykkishólmi eru í daglegu tali nefndir Hólmarar. Atvinnulífið er fjölbreytt en stærstu greinarnar er sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Bærinn hefur frá 19. öld verið miðstöð verslunar og þjónustu fyrir Breiðafjörð og nærliggjandi svæði. Árni Thorlacius reisti í Stykkishólmi 1828, stórt timburhús, Norska húsið, sem stendur þar enn og þykir með merkilegri gömlum húsum á staðnum. Nafngiftina hlaut þetta fyrsta tvílyfta og um tíma stærsta íbúðarhús sem reist var hérlendis, sökum þess að allur efniviður í það var sóttur tilhöggvin til Noregs. Húsið var gert upp og fært í upprunalegt horf á árunum 1972-1987 og er þar nú Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla. Skóli var reistur í Stykkishólmi árið 1896, iðnskóli 1952 og tónlistarskóli stofnaður þar 1959. Sýslumaður Snæfellinga og Hnappdæla hefur setið í Stykkishólmi frá ofanverðri 18. öld og læknir líka. Árið 1936 tók þar til starfa sjúkrahús sem reist var og rekið af reglu heilags Fransiskusar. Amtsbókasafn Vesturamtsins var stofnað í Stykkishólmi árið 1847 og nýtt bókasafn 1960. Þar hefur verið veðurathugunarstöð frá árinu 1845 og er það sú elsta á landinu. Stykkishólmur breyttist úr kauptúni í kaupstað árið 1987.

 Heimildir:

  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal. Landið þitt Ísland, S-TÖrn og Örlygur1982.

  • Björn Hróarsson. Á ferð um landið, SnæfellsnesMál og menning1994ISBN: 9979-3-0853-2