Fjölmiðlafár í Stykkishólmi

Fjölmiðlafár í Stykkishólmi

Hólmarar hafa eflaust tekið eftir ört vaxandi straum ferðamanna í bæinn undanfarna daga. Veðrið hefur leikið við íbúa undanfarið eins og svo oft áður og bærinn iðað af mannlífi. Í vikunni hefur töluvert borið á fjölmiðlum í Stykkishólmi, bæði hafa verið hér innlendir og erlendir fjölmiðlar að spóka sig um í veðurblíðunni og safna myndefni sem heillar áhorfandann.

Já, Hólmurinn hann heillar enn, það er vart hægt að kalla frétt enda flykkist hingað fólk hvaðan af úr veröldinni til að sjá Hólminn og kynnast bæjarbúum.

MAGNÚS HLYNUR KYNNTIST HÓLMURUM

Magnús Hlynur var á ferðinni á mánudag og þriðjudag og náði tali af nokkrum vel völdum Hólmurum. Hann gerði m.a. sjósund að umfjöllunarefni og gömlu húsin í Stykkishólmi. Svo skemmtilega vildi til að þegar Magnús bar að garði var verið að vinna í tveimur gömlum húsum á Skólastíg, og styrkja þar enn fremur götumyndina sem oft er sögð sú fallegasta á landinu. Til að kynnast betur öllum helstu málum líðandi stundar í Stykkishólmi gerði Magnús sér einnig fer í bakaríið og náði þar tali af góðum hóp.

ERLENDIR ÁHRIFAVALDAR GRILLUÐU Á HÖFNINNI

Íslandsstofa var einnig á ferðinni með hóp af erlendum fjölmiðlum og áhrifavöldum. Sú ferð snéri einna helst að því að kynna matarmenningu, íslenska fiskinn og sjávarfang. Hópurinn gerði að og grillaði fisk á höfninni, fór í siglingu og snæddi hádegis- og kvöldverð á veitingastöðum bæjarins.

SKESSUHORN OG FRÉTTABLAÐIРEINNIG Á FERÐINNI

Þá var fréttaritari Skessuhornsins einnig á ferðinni til að fylgjast með hópnum og taka stöðuna á Hólmurum í leiðinni. Þar að auki kom fréttaritari frá Fréttablaðinu sem tók púlsinn á leikskólanum og fylgdist með þegar yngstu börnin léku við lítið lamb sem þar var í heimsókn.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá síðustu dögum.