Skautasvell og gönguskíðabraut í Stykkishólmi

Skautasvell og gönguskíðabraut í Stykkishólmi

Síðastliðinn laugardag, þann 12. febrúar, gerðu þau Magnús Ingi Bæringsson, æskulýðs- og tómstundafulltrúi Stykkishólmsbæjar, og Sigga Lóa sér lítið fyrir og sópuðu snjó af svellinu við flugstöðina í Stykkishólmi.  Fjöldinn allur af Hólmurum nýtti tækifærið og dustaði rykið af skautunum í kjölfarið. 

Nú geta gönguskíðagarpar hér í bæ einnig tekið gleði sína þar sem búið er að riðja gönguskíðabraut á golfvellinum. Eftir ábendingu frá íbúa hafði Magnús samband við Kristján Auðunsson sem ruddi brautina með þar til gerðum búnaði eins og sjá má á myndunum hér að neðan.

Veðrið hefur leikið við okkur Hólmara undanfarið eins og svo oft áður og gera veðurfróðir Hólmarar ráð fyrir að ekkert lát verði á því á næstu dögum. Því er um að gera að njóta blíðunar og spreyta sig á vetrarsportinu.