Umhverfisvottun þrettán ár í röð

Umhverfisvottun þrettán ár í röð

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi fagna nú EarthCheck umhverfisvottun 13. árið í röð – til hamingju Snæfellingar!

Sveitarfélögin fengu fyrst vottun frá vottunarsamtökunum árið 2008, fyrst allra samfélaga í Evrópu, og halda því áfram að vera leiðandi samfélag í úrbótum umhverfis- og samfélagsmála.

Með samtakamætti á Snæfellsnesi fyrir nær tveimur áratugum hófu sveitarfélögin á Snæfellsnesi ferli til að fá umhverfisvottun, eitt af þeim skrefum sem hafa verið tekin til að standa vörð um náttúru og samfélag á svæðinu. Ferlið tók nokkur ár, skipulagsbreytingar og aðlaganir í takt við breyttan heim, og á endanum fengum við umhverfisvottun EarthCheck árið 2008. Vottunin er ekki árangurinn í sjálfu sér, heldur staðfesting á árangri og framförum.

Ferlið er umfangsmikið og felst helsta áskorunin í því að innleiða sjálfbærnistefnu sveitarfélaganna í alla starfsemi, hafa eftirlit með auðlindanotkun og vinna að úrbótum þar sem við getum gert betur. Óháður sérfræðingur metur árlega hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar en kröfurnar sem uppfylla þarf aukast með ári hverju. Því er mikilvægt að halda góðu verki áfram og vinna stöðugt að úrbótum í átt til sjálfbærari starfsemi sveitarfélaganna fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Íbúar eru hvattir til að kynna sér Umhverfisvottun Snæfellsness og hafa samband við verkefnastjóra, Guðrún Magneu, ef það vakna hugmyndir eða athugasemdir varðandi umhverfis- og samfélagsmál, sem snerta aðkomu sveitarfélaganna að ferðaþjónustu eða óska eftir frekari upplýsingum. Jafnframt er vakin athygli á vefsíðu verkefnisins, Umhverfisvottun Snæfellsness: nesvottun.is