Hvatning til eldri borgara: Förum í sund!

Hvatning til eldri borgara: Förum í sund!

Verkefnið heilsuefling eldri borgara í Stykkishólmi, sem hófst haustið 2018, hefur vakið verðskuldaða athygli víðs vegar um landið og verið öðrum hvatning til að huga betur að heilsueflingu og lýðheilsu eldri borgara. Í Stykkishólmi er til staðar öflugur mannauður og einstaklega góðir innviðir til þess að við getum áfram staðið okkur vel í þessum málaflokki. Íþróttamannvirkin, þ.m.t. sundlaugin, er hluti af þeim innviðum þar sem fjölmargir möguleikar eru til fjölbreyttrar sundiðkunar og æfinga. 

Á þessum grunni ákvað bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar í samræmi við hvatningu öldungaráðs bæjarins, samhliða breytingum á gjaldskrá sundlaugar sl. haust, að Stykkishólmsbær haldi áfram að leggja sitt af mörkum við að styðja við eflingu heilsu og velferðar eldra fólks með því að styrkja íbúa Stykkishólmsbæjar, sem eru 67 ára og eldri, um aðgengi að sundlaug Stykkishólms endurgjaldslaust í tengslum við verkefnið heilsuefling eldri borgara í Stykkishólmi. Með öðrum orðum greiða eldri borgarar í Stykkishólmi ekki stakt gjald né þurfa að kaupa árskort í sund þrátt fyrir að ný gjaldskrá geri ráð fyrir því. Í Sundlaug Stykkishólms er nafnalisti sem telur alla íbúa bæjarins 67 ára og eldri. Því er nægjanlegt fyrir viðkomandi aðila að taka fram í afgreiðslu sundlaugarinnar að þeir séu á lista yfir eldri borgara. 

Margt getur haft jákvæð áhrif á lífsgæði okkar en regluleg og markviss hreyfing leikur þar án efa aðalhlutverk, bæði hvað varðar líkamlega og andlega heilsu. Stykkishólmsbær vill því hvetja sérstaklega eldri borgara í Stykkishólmi til að huga áfram vel að heilsunni og nýta þá góðu aðstöðu sem hér býðst til sundiðkunar og njóta góðs af hinu margrómaða heita vatni okkar Hólmara. 

Sundlaugin í Stykkishólmi er opin alla virka daga frá 07:05-22:00 og um helgar frá 10:00-17:00.

Íbúar 60+ í Stykkishólmi eru jafnframt hvattir til að kynna sér Heilsueflingu eldri borgara, en nánari upplýsinga um verkefnið má leita hjá Magnúsi Bæringssyni, tómstunda- og æskulýðsfulltrúa Stykkishólmsbæjar.