Ókeypis bókasafnskort

Ókeypis bókasafnskort

Nú um áramótin gekk sú breyting í gildi að aðild að Amtsbókasafninu í Stykkishólmi var gerð ókeypis. Nú geta því allir nýtt sér allan safnkost Amtsbókasafnsins án þess að draga upp veskið. Á bókasafninu er veitt fjölbreytt þjónusta. Auk þess að lána út bækur og tímarit eru til útláns DVD diskar, kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir. Nýverið var auk þess tekið upp á því að lána út borðspil. Amtsbókasafnið er auk þess aðili að Rafbókasafninu. Þeir sem hafa gilt bókasafnskort hjá safninu geta fengið að láni fjölda raf- og hljóðbóka í rafrænu formi og notið þeirra í snjalltækjum eða tölvum. Á safninu er góð vinnuaðstaða og þráðlaust net. Starfsfólk aðstoðar eftir fremsta megni við heimilda- og upplýsingaleit. 


Á safninu eru til bækur um allt milli himins og jarðar, skáldsögur, fræðibækur, teiknimyndasögur fyrir börn og fullorðna. Auk íslensku eru til bækur á ensku og pólsku. 
Í eðilegu árferði er boðið upp á kaffi á safninu og dagblöð til að lesa á staðnum auk þess sem það eru bangsar og leikföng fyrir börnin. Við hlökkum til þegar það verður hægt aftur þegar lífið færist í eðlilegra horf. Þá verður líka farið aftur af stað með sögustundir fyrir börn og fjölbreytta viðburði. 

Amtsbókasafnið í Stykkishólmi er opið þriðjudaga til föstudaga frá 14-17. 

Sjáumst á Amtsbókasafninu þínu.

Nanna Guðmundsdóttir
Forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi